Bíll ársins í Evrópu 2012?
Nú er búið að velja 35 bíla sem keppa um viðurkenninguna, bíll ársins í Evrópu 2012. Núverandi handhafi titilsins er Nissan Leaf rafbíllinn sem bar sigurorð af öðrum áhugaverðum en hefðbundnum bílum sem náðu inn í lokaúrtakið í fyrra. Sigur Leaf er sögulegur þar sem hann er fyrsti og eini rafknúni bíllinn sem sigrað hefur í þessari virtu keppni.
Augu margra munu beinast að Opel Ampera (myndin) og systurbílnum Chevrolet Volt. Bílarnir eru spennandi valmöguleiki, rafknúnir og einnig búnir sprengihreyfli. Ampera og Volt eru tengiltvinnbílar sem hægt er að hlaða með heimilisrafmagni á nóttunni og aka fyrstu 60 – 70 km á þeirri hleðslu. Vanti hleðslu ræsist sprengihreyfillinn og hleður inn á rafhlöðurnar.
Sterkir keppinautar
Blaðamenn Motor, sem FDM systurfélag FÍB í Danmörku gefur út, telja að nýr bíll frá Fiat af Panda gerð geti safnað stigum. Þeir eru einnig hrifnir af nýja Ford Focus bílnum. Focusinn er sá fyrsti í sínum flokki sem útbúinn er með nýjum og háþróuðum öryggisbúnaði sem fram að þessu hefur aðeins fengist í mun dýrari bílum. Danirnir nefna einnig tvo kóreanska bíla, Kia Picanto og Hyundai i40. Tveir tvinnbílar frá Peugeot þ.e. 3008 Hybrid og 508 RXH eru taldir áhugaverðir m.a. vegna frumlegra tæknilausna.
Nú er í fyrsta skipti rafbíll frá Renault í keppninni. Renault Fluence Z.E. er fyrsti bíllinn með útskiptanlegum hleðslurafgeimapakka. Til stendur að setja upp rafgeimaskiptistöðvar í Danmörku og víðar og sú fyrsta er þegar tilbúin við Herlev í Kaupmannahöfn.
Strangar prófanir
Framundan eru strangar og viðamiklar prófanir á bílunum 35 sem framkvæmdar eru af 58 bílablaðamönnum í 22 löndum í Evrópu. Í byrjun desember verða 28 bílar fallnir úr keppni en 7 bílar fara í lokakeppnina. Endanlegur sigurvegari – bíll ársins 2012 - verður loks kynntur á bílasýningunni í Genf í mars á næsta ári.
Hér undir er listi yfir bílana 35 sem berjast um titilinn bíll ársins 2012 í Evrópu:
Audi A6
Audi Q3
BMW 1-línan
BMW 6-línan
Chevrolet Orlando
Citroën DS4
Citroën DS5
Fiat Panda
Ford Focus
Ford B-Max
Honda Civic
Hyundai i40
Hyundai Veloster
Kia Picanto
Kia Rio
Lancia Ypsilon
Lexus GS
Mazda CX-5
Mercedes-Benz B-línan
Mercedes-Benz M-línan
Mercedes-Benz SLK
Mini Coupé
Opel Ampera/Chevrolet Volt
Opel Zafira
Peugeot 508/RXH
Peugeot 3008 Hybrid
Porsche 911
Range Rover Evoque
Renault Fluence Z.E.
Ssangyong Korando
Toyota Verso S/Subaru Terzia
Toyota Yaris
VW Beetle
VW Jetta
VW Up