Bíll eða mótorhjól?
18.05.2005
Ef einhver hefur áhuga á mótorhjóli en lætur skjólleysið og kuldann aftra sér að fá sér hjól ætti hann að líta nánar á hið hollenska farartæki, Carver. Carver líkist í akstri nokkuð mótorhjóli, það hallar sér í það minnsta inn í beygjur um allt að 45 gráður og stýrið er svipað og á mótorhjóli.
Carver farartækið eða fyrirbærið er smíðað úr stálrörum, svipað og grindur í sportbílum og reyndar mörgum mótorhjólum. Fyrir aftan ökumann er farþegasæti en innrýmið er alveg lokað eins og í bíl. Innrýmið er síðan á liðum ofan á afturhjólastellinu og tölvustýrt vökvaþrýstikerfi sér um að halla því inn í beygjur í takti við hraða og hversu krappt er lagt á stýrið. Drif er á afturhjólunum tveimur og mótorinn er fjögurra strokka 65 ha. mótorhjólsmótor sem kemur farartækinu í hundraðið á 8,2 sek. og upp í 185 km/klst. Meðaleyðsla í blönduðum akstri er 5,5 l á hundraðið.
Carver mótorhjólsbíllinn er 340 sm að lengd, 130 sm breiður og 140 sm á hæðina. Afturhjólin eru bílhjól að stærð 195/45-15 en framhjólið er að stærð 140/70-17. Af staðalbúnaði má nefna rafmagnsrúðuvindur, léttmálmsfelgur, málmlakk, leður og tauáklæði, útvarp, geislaspilari og þjófavörn. Búið er að gerðarviðurkenna Carver í Evrópu og framleiðsla er að hefjast og verða fyrstu farartækin afhent eigendum undir haustið. Verðið við verksmiðjudyr er 30 þúsund evrur.
Yfirbyggingin hallar sér sjálfvirkt inn í beygjur, þó ekki í afturábakgír eða þegar hraðinn er undir 30 km á klst.