Bíll frá Keith Richards á uppboði
Breska uppboðsfyrirtækið Bonhams er með Pontiac blæjubíl árgerð 1950 til sölu. Bíllinn sem var áður í eigu Keith Richards, gítarleikara í Rolling Stones, verður boðinn upp 30. apríl. Reiknað er með að fyrir hann fáist í kring um 35 þúsund dollarar. Uppboðið þann 30. apríl verður haldið í safni breska flughersins; Royal Air Force Museum í Hendon, skammt utan við London.
Algengt verð á sambærilegum fornbílum eins og þessum Pontiac er 25 til 75 þúsund dollarar eftir ástandi og upprunaleika. Þessi tiltekni bíll virðist því ekki vera í neinu ofurgóðu standi. Hann er heldur ekki sagður vera neitt sérstaklega tengdur Keith Richards né hljómsveitinni umfram það að hafa verið í eigu Richards á því tímabili þegar hljómsveitin hélt til á sveitarsetri í S. Frakklandi og tók upp plötuna Exile on Main Street. Þótt margar myndir séu til af bílnum frá þessu tímabili birtist aldrei nein mynd af honum á plötuumslögum Rolling Stones. Þá hefur honuym víst aldrei brugðið fyrir í tónlistarmyndböndum hljómsveitarinnar.