Bíll sem óhætt er að lána táningunum
Hjá Ford í Evrópu er nú verið að leggja lokahönd á rafeindakerfi sem gerir mögulegt að læsa fjöldamörgum eiginleikum bílsins og takmarka með því hverskonar notkun og misnotkun hans. Þetta þykir mjög vænlegt fyrir fjölskyldur með unglinga innanborðs sem komnir eru með ökuréttindi og telja sig betur hæfa en nokkra aðra manneskju til að aka hratt. Með búnaðinum og sérstakri fjarstýringu sem honum fylgir geta foreldrar nefnilega takmarkað fjöldamargt eins og t.d. hámarkshraða bílsins og hljóðstyrk hljómtækjanna. Ford B-Max bílar sem renna munu af færiböndum frá og með haustinu verða ýmist með þessum búnaði sem nefnist „MyKey-System,“ eða möguleika tll að setja búnaðinn fyrirhafnarlítið í bílinn.
Hver rannsóknin af annarri í áranna rás, hvar sem er í veröldinni hefur staðfest það að ökumenn undir 25 ára aldri eru að meðaltali þrefalt líklegri til að lenda í alvarlegum umferðarslysum heldur en þeir sem eldri eru. Og áhættan er því meiri sem ökumennirnir eru yngri. Mörgum foreldrum hryllir því við tilhugsuninni um að þeirra eigin börn gætu farið sér að voða í umferðinni á heimilisbílnum. Margir munu því vafalítið fagna þessu.
MyKey-kerfið kemur fyrst í fyrrnefndum B-Max, sem er lítill fjölnotabíll byggður á sömu grunnplötu og Ford Fiesta. Það kemur síðan í hverri gerðinni af annarri og í nokkrum völdum gerðum verður það staðalbúnaður að sögn upplýsingafulltrúa innflytjanda Ford í Danmörku.
Kerfið gerir foreldrum mögulegt að forrita bílinn á ýmsan hátt: Hægt er að ákvarða bílnum hámarkshraða og gera ómögulegt að aftengja viðvörunarflautu sem segir ökumanni og farþegum að spenna bílbeltin. Þá er hægt að forrita hann þannig að hann fari hreinlega ekki af stað og ekki kvikni á hljómtækjunum fyrr en öll belti eru spennt. Fyrir þann sem fær bílinn lánaðan á að vera útilokað að hann geti fjarlægt þær takmarkanir sem bíleigandinn eða foreldrarnir hafa forritað, nema að komast í fjarstýringuna og þekkja lykilorðið sem þarf til að geta forritað bílinn. Loks ef það mikið högg kemur á bílinn sem sprengir upp loftpúða hans, þá hringir kerfið sjálfvirkt í 112 neyðarnúmerið og gefur upp staðsetningu bílsins.