Bíll sprengdur með fimm kílóum af TNT
Sprengjan springur. Myndirnar hér á eftir eru nokkurnveginn í tímaröð og sýna framgang sprengingarinnar frá upphafi til enda og afleiðingar hennar. Hópmyndin er af þeim sem viðstaddir voru atburðinn. Lengst til vinstri eru sprengiefnasérfræðingar Landhelgisgæslunnar og lengst til hægri er Magnús Þór Jónsson prófessor.
Sprengiefnasérfræðingar Landhelgisgæslunnar komu í gær fyrir sprengiefni á stuðarannum á gömlum Volvo bíl sem síðan var sprengdur. Þetta var gert að frumkvæði Umferðarstofu í tilefni af umferðaröryggisviku Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur. Tilgangurinn var sá að líkja eftir árekstri á 150 km hraða á steinvegg. Tilraunin tókst mjög vel og bifreiðasmiður sem var á staðnum tjáði fréttavef FÍB að bíllinn liti svipað út eftir sprenginguna og bíll eftir mjög harðan árekstur.
Það var Magnús Þór Jónsson prófessor í vélaverkfræði sem reiknaði út sprengikraftinn og það magn sprengiefnis sem til þyrfti til að fara sem næst áhrifum hörkuáreksturs. Magnús Þór er sá sérfræðingur sem oftast er fenginn til að meta hraða ökutækja eftir umferðarslys. Hann sagði við fjölmiðla eftir sprenginguna í gær aðspurður um notkun sprengiefnis til að líkja eftir árekstri að þetta væri í raun sambærilegt við það athæfi að aka á ofsahraða í almennri umferð og mögulegar afleiðingar þess. „Menn sem keyra á þessum hraða eru eins og hryðjuverkamenn sem eru eins og tifandi tímasprengjur sem geta sprungið hvenær sem er. Þetta er það sem Umferðarstofa er reyna að benda á með þessari tilraun,“ sagði Magnús í samtali við Morgunblaðið í dag.
Tilraunin í gær fór þannig fram að bílnum var stillt upp með framendann upp að steinvegg gamallrar sprengiefnageymslu frá bandaríska hernum. Sprengiefninu var komið fyrir á stuðara bílsins og þegar sprengt var losnaði svipuð orka úr læðingi og er uppsöfnuð í bíl á miklum hraða. Með því að stilla bílnum upp við steinvegg sprengjuheldrar sprengiefnageymslu var hugmyndin sú að steinveggurinn endurvarpaði orkunni í bílinn. Veggurinn var hins vegar ekki nógu sterkur til að endurvarpa henni allri því að hann brast og gat myndaðist þannig að segja má að bíllinn hafi ekki „náð 150 km hraða“ heldur hafi aflið sem náði að endurkastast í bílinn verið kannski nær því að jafngilda 110-130 km.
Bíllinn sem sprengdur var í gær var gamall Volvo 240. Þessir bílar voru mjög sterkir og árekstrarþolnir þannig að eftir atburðinn var hann nokkuð heillegur að sjá. Framendinn var hins vegar mjög illa farinn, krumpusvæði hans gengið saman og vélin mjög brotin og gengin aftur og undir gólf bílsins eins og gerast á við raunverulegan árekstur. Farþegarýmið virtist nokkuð heillegt við fyrstu sýn, en sætin höfðu lyfst upp og gengið fram á við og ýmislegt aflagast svo mjög við höggið að ólíklegt má telja að nokkur manneskja í bílnum hefði lifað af sambærilega harðan raunverulegan árekstur.