Bíllinn ekki lengur stöðutákn
Bílablaðamaður við Svenska Dagbladet segir í grein að Internetið hafi varanlega breytt bílgreininni og viðhorfum fólks, sérstaklega þeirra yngri, til bíla og bíleignar. Þær breytingar eigi eftir að halda áfram og verði ekki stöðvaðar. Að taka bílpróf og eiga bíl sé ekki lengur mikilvægur áfangi ungs fólks á lífsbrautinni. Það sýni sig m.a. í því að um það bil 60 prósent Stokkhólmsbúa á aldrinum 18-24 ára eru nú án ökuskírteinis.
Á árunum upp úr 1960 var það draumur meirihluta ungra manna og kvenna að eignast nýjan eða nýlegan bíl. Það er það ekki lengur. Það er mjög kostnaðarsamt að eignast og reka bíl og bíll er ekki nauðsynlegur lengur til að komast í kynni við annað ungt fólk. Fólk kynnist í dag og hefur samskipti á Netinu í stað þess að setjast upp í bíl og keyra niður í bæ á rúntinn eða í næsta kaupstað eða þorp til að sýna sig og sjá aðra og mynda ný tengsl. Blaðamaðurinn telur að eftir þessu verði bílaframleiðslugeirinn að aðlaga sig. Bíllinn sé einfaldlega ekki lengur stöðutákn og tákn frelsis og hreyfanleika hjá þeim ungu heldur bara hvert annað tæki – tæki sem hægt sé að komast af án. Þetta sýni sig í því að nýbílasala í Evrópu hefur minnkað um 15 milljón bíla frá 2007 niður í 11,8 milljón bíla í ár og ekkert bendi til annars en að hún haldi áfram að dragast saman á komandi ári.
Þetta staðfestir talsmaður Renault í Svíþjóð við Motormagasinet og segir: -Bílar eru ekki lengur stöðutákn. Fólk velur sér I-pad, snjallsíma, öfluga nettengingu og stóran og góðan skjá í stað bíls. Stöðugt færra 18-24 ára fólk tekur bílpróf meðan stöðugt fleiri úr þessum aldurshópi velja sér búsetu í stórborgum með góðum almannasamgöngum. Jafnframt fjölgar þeim sem fá sé aðgang að bíl með því að gerast meðlimir í því sem kallast Car-Pool, en hver bíll í slíkri samnýtingu er talinn koma í stað 15 einkabíla.