Bílnúmeraplöturnar á Íslandi þær næst dýrustu í Evrópu
Bílnúmeraplöturnar - næst dýrastar á Íslandi.
Mörgum þykir nóg um að greiða 5.200 krónur fyrir tvær plasthúðaðar álplötur með bláum upphleyptum kanti, tveimur upphleyptum bókstöfum og þremur tölustöfum sem einnig eru með bláum lit sem þolir illa þvott og máist af með tímanum.
Verðið 5.200 krónur, sem okkur íslenskum bíleigendum er gert að greiða fyrir númeraplöturnar á bíla okkar er hið næst hæsta í Evrópu og það er vissulega hátt því að kostnaðarverðið er tæpast hærra en þúsund krónur á settið. Í Danmörku er kostnaðarverð númeraplatnanna rúmar 860 krónur. Mismunurinn, 4.200 rennur til rekstrar íslensku fangelsanna og eru því í raun skattur sem lagður er sérstaklega á bifreiðaeigendur þótt ekki verði beint séð að það sé meir í þágu bifreiðaeigenda en annarra Íslendinga að fangelsismálum á Íslandi sé vel fyrir komið.
En ef okkur Íslendingum ofbýður verðið þá má vissulega segja að í Danmörku gangi það út yfir allan þjófabálk. Þar kostar númeraplötusettið nefnilega 14.538 íslenskar krónur. Ódýrustu númeraplöturnar eru í Finnlandi. Þar kostar settið 1.195 ísl. krónur. Á meðfylgjandi grafi má sjá verð bílnúmeranna í ýmsum löndum.