Bíræfnir þjófar stela stýritölvu við afturdrif úr Volvo jeppa á bílastæði
Félagsmaður í FÍB kom að bíl sínum í síðustu viku, sem er um 10 ára gamall Volvo jeppi, og ætlaði að aka af stað frá heimili sínu. Við ræsingu sá hann blikkandi viðvörunarljós í mælaborði. Bíllinn var fluttur á verkstæði og þá kom í ljós að stýritölva fyrir mismunadrif og fl., sem liggur undir bílnum nálægt afturöxli, hafði verið stolið.
Bíræfinn þjófur eða þjófar höfðu skriðið undir bílinn og skrúfað stýritölvuna lausa og skorið á rafleiðslur. Starfsmenn verkstæðisins höfðu ekki séð svona aðfarir áður en könnuðust við eitt annað svona tilvik frá öðru verkstæði.
Nokkuð hefur verið fjallað um svona þjófnaði erlendis en fá svona mál hafa komið til FÍB á liðnum árum. Þetta er víti til varnaðar og mikilvægt að fólk sé vakandi gagnvart óeðlilegum mannaferðum við eða undir bílum á bílastæðum.
Félagsmaðurinn fékk að vita hjá Brimborg umboði Volvo að þessi íhlutur kosti nýr frá umboði yfir 250.000 krónur. Þessum þjófnaði fylgir verulegt fjárhagslegt tjón fyrir bíleigandann auk mikilla óþæginda og fyrirhafnar.
Búið er að kæra málið til lögreglu og tilkynna til tryggingafélags.