Bjargar Tesla Boeing?
Elon Musk eigandi og forstjóri Tesla Motors hefur boðið Boeing flugvélaverksmiðjunum aðstoð við rafgeymavandamál. Eitt af vandamálum Boeing í sambandi við nýju Dreamliner flugvélarnar er einmitt það að ofhitnun og jafnvel eldur hefur komið upp í rafgeymum í vélunum.
Á laugardaginn var sagði Elon Musk á samskiptavefnum Twitter að hann ætti í viðræðum við yfirverkfræðing Boeing 787 Dreamliner vélanna um vandamálin með vélarnar. Hann vildi gjarnan hjálpa til við að leysa þau. Dreamliner vélarnar sem komnar voru í notkun hafa allar verið settar í flugbann vegna eld- og sprengihættu í rafgeymum þeirra og eldsneytisleka.
Elon Musk er maðurinn sem á sínum tíma bjó til Internetgreiðslukerfið Pay-Pal. Hann varð milljarðamæringur þegar hann seldi Pay-Pal netversluninni E-Bay en keypti síðan rafbílaframleiðandann Tesla í Silíkondal í Kaliforníu sem þá var nær gjaldþrota. Honum hefur tekist að koma Tesla aftur á ágætt flug, sala á nýja Tesla S bílnum gengur vel, enda er drægi hans verulega meira en drægi rafbíla hefur verið til þessa.
Auk þess að stýra Tesla er Elon Musk einnig forstjóri fyrirtækisins SpaceX sem fæst við geimferðir og geimflutninga. Í tölvupósti sem Musk sendi fréttastofu Reuters segir hann að rafhlöðusamstæður sem hannaðar hafa verið fyrir geimför hjá SpaceX gætu trúlega komið Boeing að góðum notum. Þetta væru líþíumrafhlöður sem hefðu sýnt sig að vera miklu afkastameiri en aðrar slíkar og virkuðu jafn vel við sjávarmál sem úti í geimnum þar sem loftþrýstingur væri enginn. Eldur eða yfirhitun hefði aldrei komið upp í þessum rafhlöðum, hvorki í eldflaugum og geimförum SpaceX né í Teslabílum, þar sem þær væri einnig að finna.
Bandarísk og japönsk flugmálayfirvöld hafa undanfarnar vikur sitt í hvoru lagi rannsakað líþíum-jóna rafhlöður í tveimur Dreamliner flugvélum þar sem reykur og eldur hefur komið upp í rafhlöðunum. Ekki hefur enn tekist að greina ástæður yfirhitnunarinnar og meðan svo er sitja alls um 50 Dreamliner flugvélar á jörðu og mega ekki fljúga. Þessar nýju flugvélar eru þær fyrstu sem búnar eru líþíum-jóna rafhlöðum. Rafhlöðurnar geyma í sér raforku fyrir ljós og loftræstingu á jörðu niðri, til að ræsa hreyflana og varaafl fyrir stjórntæki vélarinnar.
Líþíumgeymarnir í Dreamliner eru af svokallaðri kóbalt oxíð gerð, svipaðir þeim sem voru í Tesla Roadster sportbílunum frá 2008 til 2012. Geymarnir í Tesla S eru annarrar gerðar og sagðir miklu langdrægari.