BL innkallar Hyundai Kona EV vegna mögulegrar hitamyndunar í háspennurafhlöðu
Hyundai Motor Company hefur tilkynnt BL, umboðsaðila framleiðandans hér á landi, að fyrirhugað sé að skipta um háspennurafhlöður í tilteknum fjölda rafbíla af gerðinni Kona EV sem framleiddir voru á tímabilinu maí 2018 til mars 2020 í verksmiðjunni í Ulsan í S-Kóreu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Neytendastofu.
Útskiptin eru vegna mögulegrar hitamyndunar í háspennurafhlöðu við ákveðin skilyrð sem valdið getur skammhlaupi og mögulega bruna í rafhlöðunni.
Hverfandi líkur
Þótt líkurnar séu litlar á að þetta gerist er vitað um eitt tilvik í Evrópu. Ekkert slíkt hefur komið upp hérlendis. Hyundai er hins vegar mjög umhugað um gæði framleiðslu sinnar og greip framleiðandinn strax til viðeigandi ráðstafana til úrbóta og er möguleikinn ekki lengur til staðar í framleiðslunni.
Hleðslan sé takmörkuð við 90%
Í öryggisskyni og samræmi við leiðbeiningar Hyundai er þeim tilmælum beint til eigenda að hlaða háspennurafhlöðu bílsins framvegis einungis upp að 90% þar til skipt verður um rafhlöðuna en með breytingunni er fyrirbyggt að ofhitnun geti orðið í rafhlöðunni.
Gert ráð fyrir fyrstu rafhlöðunum í sumar
Hyundai vinnur nú að áætlun um dreifingu á nýjum háspennurafhlöðum en vegna takmarkaðrar framleiðslugetu á þeim liggur fyrir að afhending nýrra mun dragast fram eftir ári. BL gerir ráð fyrir að fá fyrstu háspennurafhlöðurnar í sumar og hefjast innkallanir þá þegar í kjölfarið.
Frekari upplýsingar á hyundai.is
Á upplýsingaskjá Hyundai Kona EV er hægt að fara inn í skipanaferli þar sem hleðslustillingu bílsins er breytt á þann veg að hann hlaði rafhlöðuna í 90% að hámarki. Á heimasíðu hyundai á Íslandi (hyundai.is) eru einnig myndrænar útskýringar á því hvernig stillingunni er breytt. (sjá hér: https://www.hyundai.is/hledsla) Þá er viðskiptavinum ennfremur velkomið að hafa samband við þjónustuver Hyundai í síma 575 1200 til að fá munnlegar leiðbeiningar um breytinguna, koma við hjá Hyundai á Íslandi við Kauptún í Garðabæ eða næsta umboðsaðila utan höfuðborgarsvæðisins til að fá aðstoð við endurstillinguna.
Eigendum og umráðamönnum hefur verið gert viðvart
BL hefur gert eigendum og umráðamönnum bílanna, sem innköllunin nær til, viðvart um fyrirhugaða innköllun og að breyta þurfi fyrirkomulagi hleðslu bílanna í 90% að hámarki þar til skipt hefur verið um rafhlöðuna. Jafnframt hefur Hyundai ákveðið að gefa eigendum hleðsluinneign hjá Ísorku að upphæð 20 þúsund krónur (400 kWh) til að koma til móts við þau mögulegu óþægindi sem breytingin gæti haft í för með sér.