Blackstone Group sögð vera að kaupa Chrysler



http://www.fib.is/myndir/Chrysler-logo.jpg
  Detroit News greindi frá því í gær að líklegasti kaupandi að Chrysler Group í Bandaríkjunum fjárfestingafélagið Blackstone Group. Volkswagen, Renault-Nissan og Hyundai sem áður voru inni í myndinni sem næstu eigendur Chrysler séu öll hætt við að bjóða í Chrysler.

Blackstone er öflugt fyrirtæki og hrein eign þess er sögð 1,25 milljarðar dollara. Það á meirihluta í TRW Automotive Holdings og átti þar til nýlega stóran hlut í American Axle and Manufacturing sem er undirframleiðandi hjá GM, Ford og Chrysler.

Blackstone er stór fjárfestir í skemmtiiðnaði heimsins. Það er nú að kaupa 80% hlut í fyrirtækinu sem á og rekur m.a. Madame Tussaud’s vaxmyndasöfnin og Sea Life vatnagarðana. Þá á það ráðandi hlut í Lego og Legoland görðunum í Danmörku, Englandi og víðar og í skemmti- og vatnagörðum víðsvegar um Evrópu.