Blazer með hæsta dauðaslysatíðni í USA

The image “http://www.fib.is/myndir/E-Class_1B.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.The image “http://www.fib.is/myndir/Blazer330.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
E- Benz - Sá öruggasti í USA og stuttur Blazer - sá óöruggasti.
Tveggja dyra gerðin af Chevrolet Blazer er sá bíll í Bandaríkjunum sem kemur við sögu hlutfallslega flestra dauðaslysa í umferðinni. Þetta hefur komið í ljós þegar bornar eru saman dauðaslysatölur við eintakar bílategundir og –gerðir. Sá bíll sem fæstir deyja í í Bandaríkjunum hlutfallslega er á hinn bóginn Mercedes Benz E. Þá kemur á óvart að meðal öruggustu bílunum í Bandaríkjunum eru þrátt fyrir allt tveir jeppar/jepplingar, en það eru jepplingurinn Toyota 4Runner og RAV-4
Insurance Institute for Highway Safety hefur rannsakað allar tegundir umferðarslysa þar sem bílar af árgerðunum 1999-2002 komu við sögu. Alls er um að ræða 199 bílategundir og -gerðir og slysin voru bæði árekstrar bíla úr gagnstæðum áttum, aftanákeyrslur, útafkeyrslur og veltur og árekstrar við fasta hluti eins og brúarstólpa, tré, staura o.þ.h.
Í þeim slysum sem rannsóknin náði til fórust að meðaltali 87 miðað við eina milljón samskonar bíla. Almennt séð reyndist dauðaslysahlutfallið hærra þegar smábílar, jeppar og jepplingar áttu í hlut að undanteknum Toyota RAV-4 jepplingnum sem reyndist meðal þeirra bestu í þessum samanburði. Verstur var hins vegar tveggja dyra Blazer með 308 dauðaslys á hverja milljón bíla. Þegar eingöngu voru skoðuð slys þar sem bílar ultu reyndist Blazerinn einnig langverstur með 251 dauðalsys á hverja milljón bíla.
Eins og vænta mátti sýndi rannsóknin að dauðaslysahlutfallstölurnar eru lægri í meðalstórum og stórum fólksbílum og meðalstórum og stórum fjölnotabílum heldur en í smábílum og jeppum/jepplingum (að undanteknum Toyota 4Runner og RAV-4). Öruggastur er Mercedes Benz E með 10 dauðsföll á hverja milljón bíla. Í öðru sæti er Toyota 4Runner (12), í því þriðja VW Passat (16), þá Lexus RX300 (17) og Toyota RAV4 (18).
Af þeim sem bílum sem neðstir eru á þessum lista að frátöldum Blazernum eru Mitsubishi Mirage (209), Pontiac Firebird (205), Kia Rio (200) og Kia Sportage (197).
GM hafði þegar hægt verulega á framleiðslu Blazersins en eftir að niðurstöður þessarar rannsóknar voru birtar í Bandaríkjunum ákvað GM að hætta framleiðslunni fyrr en ætlunin var og munu færiböndin því stöðvast endanlega strax í aprílmánuði nk. Í niðurstöðum rannsóknarinnar er tekið fram að ekki hafi verið skoðað sérstaklega hver var hugsanlegur þáttur ökumanna í slysunum svo sem kunnátta þeirra eða kunnáttuleysi í akstri viðkomandi bíla, heilsufar, hugsanleg áfengis- eða vímuefnaáhrif, hvort öryggisbelti hafi verið notuð eða ekki o.s.frv. Alan Adler talsmaður GM sagði í samtali við fréttamann Reuters að almennt séð mætti miklu oftar rekja ástæður umferðarslysa til ökumanns og ástands hans og aksturskunnáttu, heldur en til ökutækisins.