BMW afhenti yfir 140 þúsund bíla með rafmótor á síðasta ári
Á síðasta ári afhentu umboðsaðilar BMW og Mini um allan heim 142.617 hreina raf- og tengil tvinnbíla, 38,4% fleiri en 2017. Samstæðan áætlar að í lok þessa árs verði bílar með rafmótor frá fyrirtækinu að minnsta kosti hálf milljón talsins í umferðinni, en BMW er í fremstu röð framleiðenda rafvæddra bíla í lúxusflokki.
Allt frá árinu 2013 þegar BMW kynnti fyrst rafbílinn i3 hefur framleiðsla raf- og tengil tvinnbíla fyrirtækisins vaxið jafnt og þétt og segir Harald Krüger, stjórnarformaður BMW AG, að þróunin sé í samræmi við val og væntingar viðskiptavina.
„Í þeim löndum þar sem lagaumhverfi og þróun nauðsynlegra innviða í þágu rafbíla er lengst á veg komin sjáum við gríðarlega söluaukningu og hve hratt rafbílar geta orðið aðalviðmiðun fólks þegar kemur að bílakaupum. Ég er því sannfærður um að fjöldi rafvæddra bíla BMW og Mini verði orðinn um hálf milljón fyrir árslok og að salan aukist svo enn frekar þegar við kynnum nýjar kynslóðir sambærilegra bíla,“ segir Krüger.
Evrópa er mikilvægasti markaður BMW Group fyrir sölu rafbíla og tengiltvinnbíla enda nam hlutfall sölunnar þar á slíkum bílum rúmum 50% af heildarsölunni 2018 þegar meira en 75 þúsund slíkir bílar voru afhentir. Sala rafbíla og tengil tvinnbíla skilaði fyrirtækinu um 16% markaðshlutdeild í Evrópu 2018 og á heimsvísu um 9% hlutdeild.
Helsti einstaki markaður BMW Group fyrir sölu bíla í þessum flokki er þó Bandaríkin þar sem seldir voru 25 þúsund raf- og tengil tvinnbílar á síðasta ári, bæði BMW og Mini. Hlutfall þeirra af heildarsölu fyrirtækisins þar í landi nam um 7% og var BMW 530e t.d. söluhæsti lúxus tengil tvinnbíllinn í Bandaríkjunum 2018. Á heimsvísu nam hlutfall raf- og tengil tvinnbíla í heildarsölu BMW Group um 6% á síðasta ári en hún var um 2% árið 2017.