BMW-eftirlíking á markað í Frakklandi
CEO - kínversk eftirlíking af BMW X5.
Kínverski jepplingurinn CEO er í sölubanni í Þýskalandi vegna þess hve mjög hann líkist BMW. Ekkert slíkt bann er á honum í Frakklandi og þar á hann að koma á markað upp úr næstu áramótum. Innflutningsfyrirtækið China Automobile France hyggst einnig bjóða Frökkum jepplinginn UFO sem er tiltölulega nákvæm eftirlíking af Toyota RAV4.
CEO er framleiddur í verksmiðjum ríkisfyrirtækisins Shuanghuan. Miklar uppákomur urðu út af bílnum á bílasýningunni í Frankfurt í september í fyrra og krafðist BMW sýningarbanns og hótaði málaferlum vegna þess hve mjög bíllinn líkist BMW X5.
En engu að síður var CEO sýndur í Frankfurt en BMW tókst þó í framhaldinu að koma í veg fyrir sölu á bílnum í Þýskalandi. Dómsúrskurður um það var kveðinn upp í München. Á aðra leið fór hins vegar í öðrum Evrópulöndum og Ítalía reið á vaðið – þar hófst sala á Shunaghuan CEO á fyrri hluta ársins. Ekki er hægt að segja að vel hafi gengið því samkvæmt upplýsingum ítalska bílgreinasambandsins höfðu í byrjun þessa mánaðar einungis selst 80 eintök af bílnum. Benoit Chambon forstjóri China Automobile France, sem er innflutnings- og heildsölufyrirtæki kínverskra bíla í Frakklandi, segist við fjölmiðla þó vera bjartsýnn. Bíllinn verði ódýrari valkostur við meðalstóra jepplinga í dýrari kantinum og muni kosta 25.900 evrur til að byrja með.
Hinn jepplingurinn sem hið franska kínabílaumboð hyggst bjóða er jepplingurinn UFO sem í útliti er nánast óþekkjanlegur frá næst nýjustu kynslóð Toyota RAV4. UFO er frá kínverska bílaframleiðandanum Zhejiang Jonway og byrjunarverð hans verður í kring um 16 þúsund evrur.
Það sakar kannski ekki að geta þess að í Ensku er UFO skammstöfun fyrir unidentified flying object sem á íslensku hefur verið útlagt –fljúgandi furðuhlutur.
UFO er verulega nákvæm eftirlíking af Toyota RAV4.