BMW fer út í eigin framleiðslu á rafhlöðum á Asíumarkaði
BMW Group Thailand, dótturfélag BMW í Þýskalandi hefur ákveðið að hefja eigin framleiðslu á rafhlöðum fyrir rafbíla BMW og MINI á Asíumarkaði til að mæta vaxandi eftirspurn almennings á markaðssvæðinu eftir raf- og tengiltvinnbílum BMW og MINI. Markaðshlutdeild BMW Group í Asíu fer mjög vaxandi um þessar mundir og var salan fyrstu níu mánuði ársins tæpum sextán prósentum meiri en á sama tímabili 2017.
Í Tælandi fer eftirspurn neytenda eftir rafbílum vaxandi og hyggst félag BMW leggja aukna áherslu á þann markað í sölunni. Til að þær áætlanir gangi sem best eftir hefur fyrirtækið gert samning við iðnfyrirtækið og Dräxlamaier um að hafa yfirumsjón með framleiðslu rafhlaðanna og tengdum íhlutum og búnaði sem til þarf.
Framleiðslan hefst á nýju ári í verksmiðju sem verið er að reisa í iðnaðarhéraðinu í Chonburi. Christian Wiedmann, forstjóri BMW Group Thailand, segir að framleiðsla rafhlaða í Tælandi muni auka afköst og stytta afhendingartíma á markaðnum þar sem er sívaxandi eftirspurn eftir raf- og tengiltvinnbílum.
Nýja verksmiðjan muni einnig styðja vel við núverandi bílaverksmiðju BMW í Rayong sem framleiðir m.a. fjórar gerðir tengiltvinnbíla fyrir BMW Group. Á meðfygjandi hópmynd eru saman komnir fulltrúar BMW Group í Tælandi, Dräxlamaier og BMW Group AG í Þýskalandi í nýrri verksmiðju sem verið er að reisa í Chonburi.