BMW-heimsfrumsýning hjá B&L

http://www.fib.is/myndir/BMW_Z4_Coupe.jpg
BMW Z4 Coupé.

Á mánudagskvöldið gengst BMW fyrir heimsfrumsýningu á Z4 Coupé. Meðal um 300 boðsgesta á þessum viðburði verða erlendir og innlendir blaðamenn frá prent- og ljósvakamiðlum. Frumsýningarviðburðurinn fer fram í salarkynnum BMW umboðsins á Íslandi, B&L að Grjóthálsi 1.

Í tilkynningu frá B&L segir að þetta sé fyrsti viðburður sinnar tegundar á Íslandi og í fyrsta sinn sem BMW heldur hér sýningu af þessari stærðargráðu. Þá sé óhætt að fullyrða, að viðlíka sýning hafi ekki verið haldin áður á vegum íslensku bifreiðaumboðanna. Síðan segir orðrétt:

„Engu er til sparað við frumsýningar BMW, sem þykja í senn glæsilegar og fagmannlega úr garði gerðar. Gert ráð fyrir um 300 boðsgestum, innlendum sem erlendum, og munu erlendir listamenn ásamt íslenskum matreiðslumeisturum leggja sitt af mörkum til að gera þeim heimsfrumsýningarkvöldið sem eftirminnilegast. Samhliða Z4 Coupé heimsfrumsýningunni verður Z4 Roadster blæjubíllinn jafnframt sýndur í fyrsta sinn hér á landi, en hann kom á markað með nýtt útlit og nýjan búnað sl. vor.“

Undanfarna mánuði og ár hafa bílaframleiðendur í vaxandi mæli látið gera kynningarefni um nýjar gerðir bíla sinna. Meðal nýrra bíla sem auglýstir hafa verið með kyrrmyndum og kvikmyndum sem teknar voru á Íslandi má nefna Mercedes Benz SLK sportbílinn, nýja EOS-sportbílinn frá Volkswagen o.m.fl. Einmitt þessa dagana er statt hér á landi kvikmyndatökugengi sem er að ljúka upptökum á kynningarefni fyrir nýja gerð af Land Rover. Þá er skemmst að minnast tveggja heimsókna hins heimsfræga bíla-sjónvarpsþáttar BBC; TopGear á innan við einu ári. Heimsfrumsýningin á BMW Z4 Coupé nú er enn ein staðfesting hins mikla og vaxandi áhuga bílaiðnaðarins á Íslandi.