BMW, PSA, og Toyota næstir CO2-markinu 2015
Allir bílaframleiðendur vinna að því hörðum höndum og markvissar en nokkru sinni fyrr, að draga úr koldíoxíðlosun frá bílunum og ná 2015 markmiðum Evrópusambandsins. Viðmiðun þess er 130 g/km. Þeir sem sem nú eru næstir 130 gramma markinu eru BMW, PSA (Peugeot/Citroen) og Toyota. Styst komnir eru hins vegar Daimler, Mazda og Nissan.
Markaðsrannsóknastofnunin JATO Dynamics hefur nú birt CO2 meðaltalslosun allra stóru bílaframleiðendanna sem framleiða bíla fyrir Evrópumarkað og reiknað út hversu langt í land hver og einn þeirra á með að draga úr losuninni og þar með eldsneytiseyðslunni áður en 130 gramma tilskipunin tekur gildi 2015.
Markmiðið um 130 g/km er í sjálfu sér skýrt og skiljanlegt en framkvæmdin er samt ekki alveg eins einföld því að í tilskipuninni eru tíunduð markmið fyrir hvern og einn bílaframleiðanda sem miðast m.a. við þyngd hverrar bílgerðar og kröfurnar síðan framreiknaðar út frá tiltekinni dagsetningu.
Rannsókn á bílamarkaðinum í 21 landi leiðir í ljós að meðalútblástur nýskráðra bíla árið 2009 var 145,9 g/km. Árið eftir, 2010 var meðaltalið orðin 140,9 g/km. Fiat bílar hafa í dag lægsta losunarmeðaltalið; 125,9 og hefur Fiat því í raun náð 2015 markinu með glans. En vegna fyrrnefndra framreikningsreglna er Fiat gert að koma sínu meðaltali niður í 116,1 g/km fyrir árið 2015, sem er 8,4% minnkun. Sanngirni þessa gagnvart Fiat liggur ekki alveg í augum uppi.
Samkvæmt útreikningum JATO þurfa BMW, PSA og Toyota einungis að draga úr meðalútblæstri bíla sinna um 7% fram til 2015. Í tilfelli Toyota þýðir 7% minnkunin það að meðalútblástur Toyotabíla í Evrópu fer niður í 124,8 g/km árið 2015. Í raun ætti þannig Toyota ekki að þurfa að lækka sitt meðaltal um meir en 4%.
Daimler AG, Mazda og Nissan þurfa hins vegar að taka á honum stóra sínum því að Daimler merkin Mercedes, Smart og Maybach verða að lækka um hvorki meira né minna en 19,8% frá meðalútblásturstölunni 2010.