BMW umhverfismildastur lúxusbíla

http://www.fib.is/myndir/BMW7.jpg
BMW 7 línan - umhverfismildasti lúxusbíllinn.


Ný bresk samantekt sýnir að umhverfismildasta bílamerkið meðal vandaðri bíla er BMW. BMW lúxusbílar eru samkvæmt samantektinni umhverfismildari en t.d. Lexus með sína margrómuðu tvinntækni. Á undangengnu árstímabili hefur CO2 útblástur nýrra BMW bíla minnkað um rúmlega 11 prósent. Á sama tíma hefur hann aukist hjá Porsche um um það bil hálft prósent.

Samantekt þessi er gerð af stofnun sem nefnist Clean Green Cars. Hún sýnir sömuleiðis að útblástur CO2 í nýjum bílum minnkar nú hraðar en nokkru sinni fyrr eftir að mælingar á þessu hófust snemma á tíunda áratuginum. CO2 útblástur meðalbílsins í Bretlandi um þessar mundir er 160 grömm á ekinn kílómetra. Það er um þremur prósentum minna en var á sama tíma árið 2007. Ástæðan er sögð vera fyrst og fremst rándýrt eldsneyti og breytt ökulag af þeim sökum, fremur en aukin umhverfisvitund. Út frá því er sú ályktun dregin að ef eldsneytið lækkar muni CO2 útblásturinn aukast á ný.

Sá bílaframleiðandi sem bestum árangri hefur náð í því að takmarka CO2 útblástur sinna bíla er Fiat. Á fyrra helmingi ársins var meðalútblástur nýrra Fiatbíla 138,15 g/km. Næst besta bílamerkið í þessu efni er svo Mini en meðalútblástur nýrra Mini-bíla er 139,64 g/km.
BMW er sá gæðabílaframleiðandi sem náð hefur hvað skjótustum árangri í því að draga úr CO2 útblæstrinum á þessu ári. Samdráttur CO2 útblástursins er hjá BMW er 11,34 prósent og meðalútblástur bílanna er 161,64 g/km. Reyndar hefur bæði Jeep og Subaru tekist að draga meir úr útblæstrinum í prósentum talið (Jeep um 17 prósent og Subaru um 14 prósent) en meðalútblástur bæði Jeep og Subaru er með því mesta sem gerist eða yfir 200 g/km.

Fleiri framleiðendur bíla hafa náð góðum árangri á árinu:  Meðalútblástur hjá Audi hefur lækkað um 5,78 prósent niður í 177,36 g/km. Mercedes hefur lækkað um 4,13 prósent niður í 192,85 g/km. Eftirtektarvert er að Lexus, sem leggur mikið upp úr tvinntækninni lækkaði um 2,16 procent. Meðalútblásturstalan er engu að síður fremur há, eða 194,85 g/km. Slakastur í hópi lúxusbílanna er Porsche. Aukning hefur orðið þar um 0,63 prósent upp í 275,64 g/km.