BMW X5 og X6
BMW X5 og X6 eru meðal vinsælustu bílanna hjá bílaþjófum í Svíþjóð. Bílaþjófar vorra daga eru tæknivæddir. Þeir hlaða hugbúnaði niður af netinu sem les þjófavörn bílanna og forritar nýja fjarstýringu sem síðan er notuð til að opna bílana og gangsetja og aka brott. Öllu þessu tekst þeim að ljúka á innan við fimm mínútum.
Svo virðist sem þjófavörn BMW X5 og X6 sé ekki mjög erfið viðfangs því að á aðeins 12 mánuðum hefur 65 bílum af þessum gerðum verið stolið í Stokkhólmi og þar af þremur í sama borgarhverfinu á einu og sama kvöldinu. Hið sænska Auto Motor & Sport greinir frá þessu. Enginn þessara bíla hefur fundist síðan. Áætlað verðmæti þessara bíla er um 650 milljónir ísl. króna.
Upplýsingafulltrúi BMW í Svíþjóð segir við AM&S að ekki sé við BMW að sakast. Þjófavörn bílanna sé ágæt og síður en svo verri en gangi og gerist, þvert á móti. En atvinnuþjófar gerist stöðugt tæknivæddari og hafi aðgang að sífellt betri og betri tækni til iðju sinnar og haldi þannig í við tækniþróunina á þessu sviði.