Bob Lutz í forstjórastól Opel?
Þegar stjórn General Motors tilkynnti þá ákvörðun sína í siðustu viku að hætta við að selja Opel frá sér, sagði forstjóri Opel, Carl-Peter Forster upp starfi sínu og gekk út í fússi. Breska blaðið Sunday Times segir að það verði Bob Lutz bílaframleiðslustjóri GM sem takið við stjórn Opel á allra næstu dögum. Fjölmiðlar hafa eftir Bob Lutz að nú þegar búið er að blása af söluna á Opel verði rykið dustað af fyrri sprnaðar- og hagræðingaráætlunum sem geri ráð fyrir 30 prósenta niðurskurði á kostnaði. Það er því nokkuð ljóst að gamli bílamaðurinn á ekki eftir að verða vinsæll í Þýskalandi á næstunni, taki hann við starfinu.
Þegar þetta er ritað hefur þó ekkert verið staðfest um hvort Lutz verður næsti forstjóri Opel. En hann segir sjálfur í viðtali við svissneskt blað sem birtist í gær, sunnudag, að 30 prósenta niðurskurður á öllum kostnaði sé fyirhugaður hjá Opel og að unnið verði eftir áætlun sem gerð var undir lok síðasta árs. Það þýðir að ein eða fleiri Opelverksmiðjur verða lagðar niður og miklum fjölda núverandi starfsmanna verði sagt upp.
Þetta þýðir að semja verður við stéttarfélög starfsfólks upp á nýtt. Samningar sem Magna hafði gert sem væntanlegur kaupandi meirihluta í Opel eru úr gildi fallnir og ekki pappírsins virði lengur.
Carl-Peter Forster fyrrverandi forstjóri Opel hætti þegar stjórn GM sagðist hætt við að selja Opel. Sunday Times segir að hann sé nú búinn að ráða sig til starfa hjá indverska fjölskyldufyrirtækinu Tata Motors og verði yfirmaður þess hluta Tata sem framleiðir Jaguar og Land Rover. Þýskt vikurit fullyrðir hins vegar að Forster sé ætlað að stjórna markaðssetningunni í Evrópu á ódýrasta bíl veralda, Tata Nano. Tata Nano verður fáanlegur í Evrópu árið 2011.