Borgin vill losna við nagladekkin
18.01.2006
Vinnuhópur um notkun nagladekkja í Reykjavík skilaði í gær skýrslu til umhverfisráðs borgarinnar. Hópurinn vill takmarka notkun negldra vetrardekkja í borginni og að það verði m.a. gert með því að leggja gjald á notkun þeirra, eða í það minnsta að sá möguleiki verði athugaður. Hópurinn mælir með því að samráð verði haft við hagsmunaaðila um að draga úr notkun negladekkja.
Í frétt um málið á heimasíðu Reykjavíkurborgar segir að erlendis hafi talsverðar rannsóknir farið fram til að kanna í hve miklu mæli nagladekk eru öruggari umfram önnur dekk og hvaða afleiðingar það hefði að draga úr notkun þeirra eða banna þau alfarið. „Meginniðurstöður eru þær að aðstæður þar sem nagladekk hafa kosti umfram allar aðrar tegundir naglalausra dekkja eru fremur sjaldgæfar og að slysatíðni hafi ekki aukist svo nokkru nemi eftir að nagladekk hafa verið bönnuð, til dæmis í Japan. Það virðist því hægt að draga verulega úr notkun nagladekkja án þess að öryggi vegfarenda sé stefnt í hættu. Í Reykjavík eru það í seinni tíð ekki nema nokkrir dagar á hverjum vetri þar sem nagladekkja er þörf og því er ástæða til að leita annarra leiða,“ segir þar meðal annars.
Á landsþingi FÍB í desember sl. fjallaði starfshópur um umferðaröryggi um negld vetrardekk. Niðurstaða hópsins var í stuttu máli sú að við ákveðnar aðstæður (í ísingu og á svellbunkum) tæki fátt negldum vetrardekkjum fram. Því væri það ábyrgðarhluti að setja fram einhverja almenna reglu um notkun negldra vetrardekkja, bann eða sérstaka skattlagningu á notkun þeirra. Veður og vetraraðstæður eru með ýmsu móti og misjafnar eftir landshlutum og –svæðum. Sums staðar, ekki síst inn til landsins og á vegum sem liggja hátt er ísing, svell og hálka algeng og þar geta negld vetrardekk verið nauðsynlegur öryggisbúnaður. Á öðrum stöðum, eins og t.d. höfuðborgarsvæðinu eru slíkar aðstæður fremur sjaldgæfar. Af þessum ástæðum taldi starfshópurinn á Landsþingi FÍB eðlilegast að hver og einn bifreiðaeigandi eða umráðamaður gerði sína eigin þarfagreiningu út frá því hvar hann notar bifreið sína mest og hvernig veðurfar og vetrarfæri er þar ríkjandi og fengi sér vetrarhjólbarða í samræmi við upplýsta niðurstöðu sína. Jafnframt benti hópurinn á það að stórstígar framfarir hafa orðið í þróun vetrardekkja og góð ónegld vetrardekk standa jafnfætis eða framar negldum dekkjum við nánast allar vetraraðstæður að ísingunni undanskilinni og til að mæta ísingunni er hægt að skjóta undir bílinn keðjum eða þá hinni merku nýjung – dekkjasokknum- sem einmitt þessa dagana er að verða fáanlegur á Íslandi og munu félagsmenn FÍB innan skamms geta keypt dekkjasokkana í vefverslun FÍB.