Borgin vill skattleggja negldu vetrardekkin
Fátt kemur í stað negldra dekkja á sléttum ís.
Framkvæmda- og eignaráð Reykjavíkurborgar hefur samþykkt samhljóða að biðja borgarlögmann að fara í það að leita eftir heimildum í vegalögum um gjaldtöku af negldum vetrardekkjum. Í greinargerð með tillögunni segir að nagladekk auki verulega slit á malbiki og valdi með því heilsuspillandi svifryksmengun sem bregðast þurfi við með aukinni hreinsun gatna. Þá sé talið að draga megi úr endurmalbikun gatna sem nemur 10.000 tonnum árlega, ef notkun nagladekkja dregst verulega saman.
Í greinargerðinni segir ennfremur að víða erlendis sé bannað að nota nagladekk í þéttbýli þrátt fyrir að þar ríki meiri vetrarveður en í Reykjavík. Hér sé ekki verið að leggja til bann, heldur að þeir bíleigendur sem kjósa að aka á nagladekkjum greiði fyrir notkunina enda valdi notkun nagladekkja verulegum kostnaði fyir borgina.
FÍB hefur áður varað við hugmyndum um að leggja frekari álögur á bifreiðaeigendur og einkum og sér í lagi þegar ætlunin er að fá sveitarfélögum vald í hendur til að skattleggja öryggisbúnað bíla í því skyni að draga úr kostnaði við viðhald vega og gatna. Félagið ítrekar enn og aftur þær viðvaranir og enn og aftur vill félagið benda á að ónegldir vetrarhjólbarðar hafa undanfarin ár verið að batna umtalsvert hvað varðar veggrip í vetrarfæri. Þetta hefur gerst í kjölfar rannsókna og tilrauna á vetrarhjólbörðum.
Samtök bifreiðaeigendafélaga í Evrópu kanna gæði vetrarhjólbarða reglulega og FÍB hefur birt niðurstöður þeirra um árabil. Bara þetta frumkvæði FÍB hefur eitt og sér stuðlað að því að fleiri og fleiri bifreiðaeigendur kjósa að gera sína eigin þarfagreiningu og komast að þeirri upplýstu niðurstöðu að miðað við búsetu og vetraraðstæður þar sem þeir aka mest, þurfi þeir ekki á nagladekkjum að halda og hafa því hætt að nota þau undir bíla sína. Í kjölfarið hefur þeim fækkað umtalsvert sem kjósa að aka um á negldum vetrardekkjum. Nú er talið að um það bil 70% bíla á höfuðborgarsvæðinu aki á negldum vetrardekkjum að vetrarlagi en 30% á ónegldum.
Það er staðreynd sem þó er ekki öllum kunn, að margar tegundir ónegldra vetrardekkja standast negldum dekkjum fyllilega snúning við flestar vetraraðstæður. Ónegldu dekkin reynast betur á auðum vegum, þurrum sem votum og þau eru jafngóð eða betri í snjó en þau negldu og þau eru flest hver jafngóð og negld dekk á ís, en vel að merkja þegar bílar á negldum dekkjum eru áður búnir að ýfa upp ísinn.
Á sléttu glæra-svelli er það hins vegar staðreynd að negldu dekkin hafa besta gripið. Þetta sýna árlegar kannanir á virkni vetrarhjólbarðanna ótvírætt. Út frá sjónarmiði umferðaröryggis er það því talið heppilegast þegar ísing leggst á vegi, að ákveðið hlutfall bíla sé á negldu, einmitt til þess að ýfa upp glæruna svo ónegldu dekkin nái veggripi. Erlendir umferðarsérfræðingar sem FÍB hefur verið í sambandi við telja að út frá almennum öryggissjónarmiðum sé eðlilegt að snúa við hinu reykvíska hlutfalli negldra dekkja (70%) og ónegldra (30%): 70% verði á ónegldu en 30% á negldu.
Andstæðingar negldra dekkja í Reykjavík halda því gjarnan fram og reyndar með réttu að ísingarhálka þar sé ekki sérlega algengt vetrarfæri og standi oftast stutt við, bæði vegna breytilegs veðurfars og vegna þess að af hálfu borgarinnar er alltaf brugðist skjótt við þegar ísing brestur á og götur saltaðar. En er það næg ástæða til að skattleggja negldu dekkin burt úr borginni eða banna þau? Varla
Fólk hefur mismunandi akstursþarfir og margir þurfa nauðsynlega að vera á ferðinni á vegum úti og á fjallvegum eins og t.d. Hellisheiðinni. Þar leggst oft ísing yfir veginn og sterkur vindur blæs auk þess þvert á hann. Við þær aðstæður, sléttan ís á veginum og sterkan hliðarvind eru negldu dekkin einfaldlega slík nauðsyn að fátt getur komið í þeirra stað annað en gömlu góðu keðjurnar. Er þá meiningin að þeir sem skreppa austur yfir fjall skipti yfir á ónegld dekk við borgarmörkin austur á Sandskeiði, og aftur á negldu dekkin í bakaleiðinni?
Hvað varðar fullyrðingar um svifryk af völdum nagladekkja sem Reykjaíkurborg notar sem rök fyrir því að banna nagladekkin þá þarf að rannsaka þann þátt mun betur en gert hefur verið hér. Hversu miklu meir slíta negldu dekkin götunum en ónegldu dekkin og ekki síst hversvegna? Er malbikið kannski svona lélegt? Og hversu stór hluti þessa svifryks er stöðugt sama rykið sem ýfist upp þegar bíll, stærtisvagn eða trukkur fer um götu, en sest þegar hann er farinn framhjá?
Það er alkunn staðreynd að þau steinefni sem notuð eru í slitlag vega og gatna í íslandi eru mun mýkri en þau efni sem notuð eru í grannlöndunum. Tilraunir hafa verið gerðar með innflutt og mun harðari steinefni til að blanda í malbikið. Það malbik hefur enst miklu betur en hitt. Þá skulu menn minnast gamla Keflavíkurvegarins sem var steinsteyptur og steinsteypta vegarkaflans við Leirvogsá á Kjalarnesi. Báðir þessir steinsteyptu vega létu lítt á sjá og voru nánast viðhaldslausir í hátt í 40 ár þrátt fyrir stöðuga og mikla umferð bíla á bæði negldum og ónegldum dekkjum. Er það ekki líka á ábyrgð borgarinnar að leggja slitlag á götur og vegi í borginni sem þolir umferð?
Á sínum tíma settu Norðmenn á nagladekkjaskatt í Oslóborg með nákvæmlega sömu rökum og talsmenn Reykjavíkurborgar hafa beitt gegn notkun nagladekkja um all langt árabil. Skatturinn leiddi til þess að notkun nagladekkja stórminnkaði eða niður í um 10 prósent ef rétt er munað. En gatnaslit og svifryk sem hefði samkvæmt kenningunni átt að minnka hlutfallslega eitthvað svipað gerði það bara ekki.
Í framhaldinu umbreyttu skandínavískir háskólamenn bíl í rannsóknastöð. Bílnum var ekið ýmist á negldum dekkjum og ónegldum dekkjum um götur og vegi í Svíþjóð og Finnlandi og það sama gerðist: Sáralítill munur reyndist á magni þeirra efna sem hjólbarðarnir rótuðu upp úr vegyfirborðinu. Það bendir því ýmislegt til að lélegt malbik sé stærri þáttur í þessu en nagladekkin og þetta þarf að rannsaka betur áður en farið er út í það að skattleggja öryggisbúnað – leggja einn skattinn enn á bifreiðaeigendur – nema þá að það sé meginmarkmiðið eftir allt saman?