Bosch í reiðhjólin
Á reiðhjólakaupstefnunni Eurobike í Þýskalandi sem nú stendur yfir frumsýndi íhlutaframleiðandinn Bosch heildstætt rafmagnsdrifkerfi fyrir reiðhjól. Margir helstu reiðhjólaframleiðendur heims hafa þegar ákveðið að bjóða upp á búnaðinn í mörgum gerðum reiðhjóla sinna. Hann er fólginn í rafmótor, stýrikerfi, rafhlöðupakka og hleðslubúnaði. Búnaðurinn er sagður virka þannig að sú tilfinning sem fæst af því að stíga pedalana heldur áfram að vera til staðar eins og í venjulegum reiðhjólum.
Þetta kerfi nefnist Bosch e-Bike drive system og er væntanlegt fljótlega í fjölda reiðhjólategunda og gerða, enda er það hannað þannig af hálfu Bosch að auðvelt sé að laga það að flestum hjólum, hvort heldur sem þau eru fjallahjól, götuhjól eða ferðahjól. Búnaðurinn verður seldur í smásölu og þjónustaður hjá reiðhjólaverslanakeðjunni Magura frá og með næsta vori.
Meginhlutar e-Bike kerfisins eru sjálft drifið eða hjólnafið. Innbyggt í það er rafmótorinn og hemillinn. Raforkan kemur frá líþíum geymasamstæðu en orkumælir sem festur er á stýrið sýnir m.a. stöðuna á rafgeymunum, orkunotkun og orkuframlag rafmótor og hjólreiðamanns, hraða o.fl. Hleðslutími tómra rafhlaða er aðeins tveir og hálfur tími og klukkustund tekur að hlaða tóma geymana til hálfs.
Eiginleikar reiðhjóla eru mismunandi eftir því til hvaða nota þau eru ætluð. Þannig eru eiginleikar torfæru- og fjallahjóla aðrir en götu- og ferðahjóla. E-Bike kerfi Bosch er forritanlegt og þannig hægt að aðlaga það hverskonar aðstæðum og þörfum. Hægt er þannig að velja milli ferns konar hjólreiðamáta sem heita Eco, Tour, Sport og Speed.
Frá þessu er greint í fréttatilkynningu frá Bosch. Í henni stendur ekkert um hvað þessi búnaður mun kosta.