Bosch og Getrag í samvinnu um nýja tvinntækni
06.06.2006
Bosch og Getrag eru hvort um sig meðal allra stærstu framleiðenda bílhluta. Í sameiginlegri tilkynningu þessara risafyrirtækja segir að þau ætli saman að hanna og þróa nýja tvinntækni í bíla framtíðarinna.
Bosch er stærsti framleiðandi í heiminum á rafmagns- og rafeindabúnaði í bíla og Getrag er meðal þeirra stærstu í framleiðslu gírkassa og sjálfskiptinga og einstakra gírkassahluta. Fyrirtækin hyggjast nú sameina krafta sína og þróa það sem þau kalla í fréttatilkynningu sinni samhhliða tvinnkerfi fyrir fólksbíla. Með orðinu samhliða er átt við kerfi þar sem rafmótor einn getur knúð bíl áfram óháð brunahreyfli en líka með brunahreyflinum þegar mikils afls er þörf.
Bosch leggur til hugvit tengt rafmagni og rafeindabúnaði en Getrag sér um allan vélbúnað og meðal þess er hinn tvöfaldi tölvustýrði DSG gírkassi sem getur skipt hnökralaust undir stöðugu aflálagi og þykir því kjörinn fyrir tvinnbíla.
Í tilkynningu fyrirtækjanna segir að samvinnan muni leiða til þess að hægt verði að bjóða bílaframleiðendum heimsins upp á háþróað, alsamhæft og traust tvinnkerfi framleitt með nýjustu og bestu tækni sem fyrirfinnst og sem leiða muni til verulegs eldsneytissparnaðar án þess að afl og vinnsla þurfi að lúta í lægra haldi. Ekkert er hins vegar sagt um hvenær þessi nýi drifbúnaður kemur á markað í bílum.