Brasilískir lífsháskabílar

Latin NCAP hefur birt niðurstöður fyrstu árekstursprófana sinna á nýjum bílum sem eru á markaði í Brasilíu. Latin NCAP er systurstofnun EuroNCAP í Suður Ameríku og prófar bíla á sama hátt og metur öryggi þeirra eftir sömu forsendum. Niðurstöðurnar sýna að hvað öryggi varðar eru nýir bílar í Brasilíu 20-25 árum á eftir bílum í Evrópu.

Niðurstöðurnar eru hrollvekjandi lestur og sýna að bílaframleiðendur selja S. Ameríkumönnum miklu verr búna og óöruggari bíla en þá sem þeir bjóða t.d. Evrópu- og Bandaríkjamönnum. Í Evrópu fá flestir nýir bílar fimm stjörnur í árekstrarprófunum. En í S. Ameríku er allt annað uppi. Margir af þeim nýju bílum sem bílakaupendum í S. Ameríku bjóðast eru algerlega án loftpúða og algeng stjörnugjöf Latin NCAP er einungis ein stjarna eða jafnvel engin.

http://www.fib.is/myndir/LatinNCAP.jpg
 

Margir þeirra fólksbíla sem á markaði eru í Brasilíu eru framleiddir þar og víðar í S. Ameríku. Þeir eru oftar en ekki af eldri kynslóðum bíla sem hætt er að framleiða í Evrópu. Bílaframleiðendurnir framlengja líf bílanna og tækninnar sem þeir byggja á með því að flytja gömlu framleiðsluna og framleiðslutækin til S. Ameríku og víðar. Dæmi um þetta er Chevrolet Corsa Classic sem í grunninn er Opel Corsa frá 1992. Í honum er enginn einasti loftpúði og bæði ökumaður og farþegar eru í stórhættu að slasast mikið eða láta lífið ef slys á sér stað. Prófunareinkunn þessa „nýja“ bíls er ein stjarna. Á sama tíma heyrir það orðið til undantekninga að bílar fái minna en fimm stjörnur hjá EuroNCAP.

En Chevrolet Corsa Classic er alls ekki eini bílinn sem Brasilíubúum stendur til boða sem kemur út með þessa hraklegu niðurstöðu. Lang flestir söluhæstu bílar þessa stóra og fjölmenna ríkis eru í sama ruslflokknum. Eiginlega eina undantekningin er Toyota Corolla XEI sem í grunninn er gamla Corollan frá 10. áratuginum. Brasilíuútgáfan er með sinn hvorn loftpúðann fyrir ökumann og framsætisfarþega og hlýtur fjórar stjörnur sem er ágætlega viðunandi, hvernig sem á það er litið. Toyotan er þannig eina ljósið í myrkrinu.

Max Mosley fyrrverandi forseti FiA og frumkvöðull og baráttumaður fyrir auknu öryggi í umferðinni er talsmaður Global NCAP eða NCAP (New Car Assessment Program) á heimsvísu. Hann segir að þessar nýju niðurstöður Latin NCAP sýni það og sanni að vinsælustu og söluhæstu bílarnir í S. Ameríku séu minnst 20 árum á eftir bílum í Evrópu og N. Ameríku hvað varðar öryggi.  „Við ætlum að sjá til þess að alls staðar í heiminum verði farið eftir þeim stöðlum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa samþykkt um árekstrar- og öryggisprófanir á bílum. Við viljum jafnframt gera bílakaupendur meðvitaða um að þegar þeir kaupa nýjan bíl þá stendur valið í raun um lífið eða dauðann,“ sagði Max Mosley.

Hjá Latin NCAP er farið nákvæmlega eins að við árekstursprófanir og hjá EuroNCAP. Bílarnir eru látnir skella á fyrirstöðu á 64 km hraða. Áreksturinn afhjúpaði veikleika þessara gömlu en nýbyggðu bíla. Þegar þeir í ofanálag eru án loftpúða eru þeir augljóslega stórhættulegir þeim sem í þeim ferðast ef slys á sér stað.

En ekki er nóg með það að bílarnir sé langt á eftir evrópskum bílum heldur eru lög og reglugerðir um öryggisþætti bíla einnig langt á eftir, en stjórnvöld S. Ameríkuríkja eru að vakna til vitundar. Þannig verða loftpúðar í nýjum bílum lögskyldur búnaður í Brasilíu og Argentínu frá og með árinum 2014.