Brátt mega 17 ára Danir aka bílum
Danska þingið hefur samþykkt frumvarp ríkisstjórnarinnar um að færa bílprófsaldurinn niður úr 18 í 17 ára. Um tilraun er að ræða og verða reglurnar endurskoðaðar eftir þriggja ára reynslutíma. FDM í Danmörku, systurfélag FÍB fagnar tilrauninni enda hefur félagið lagt þetta til.
Reynsla Þjóðverja o. fl. Evrópuþjóða af samskonar breytingu þykir hafa tekist vel og þangað sækja Danir fyrirmyndina að sinni breytingu. Hún er sú að eftir að 17 ára ökunemi hefur staðist bóklegt og verklegt ökupróf fær hann takmörkuð ökuréttindi. Þau eru þannig að fyrsta árið, eða þar til 18 ára sjálfræðisaldrinum er náð, má hann ekki aka bíl nema því aðeins að í bílnum sé leiðbeinandi með a.m.k. 10 ára akstursreynslu. Ennfremur skal bíllinn vera sérmerktur
Þessari breytingu er ætlað að draga úr umferðarslysum þar sem ungir og lítt þjálfaðir ökumenn eiga í hlut. Ætlast er til að foreldrar, forsjáraðilar eða aðrir nátengdir unglingunum leiðbeini þeim í akstrinum fyrsta akstursárið og stuðli þannig að því að þeir hafi öðlast góða þjálfun, færni og sjálfsöryggi þegar þeir fá fullgilt ökuskírteini 18 ára.. „Við getum ekki sætt okkur við það að ungir og óreyndir ökumenn séu sjö sinnum líklegri til að deyja í umferðarslysum en foreldrar þeirra. Þess vegna fagna ég því að þingið hafi nú samþykkt lagaramma sem gefur hinum ungu hlutdeild í reynslu og þekkingu hinna eldri ökumanna, áður en þeir sjálfir axla að fullu ábyrgð sína á limum og lífi sínu og annarra,“ segir. Hans Christian Schmidt samgöngumálaráðherra í fréttatilkynningu.