Bretar aka minna
Stöðugt hækkandi reksturskostnaður einkabíla í Bretlandi hefur haft þau áhrif að fimmti hver bifreiðaeigandi hefur hætt við fjölskylduferðalag í sumarleyfinu og þriðji hver hefur stórlega dregið úr akstri á heimilisbílnum til að heimsækja vandamenn og vini og sinna áhugamálum og tómstundastarfi. Nú í sumar hefur þetta þýtt að umferð er minni á vegum og götum. Það er ekki síst í höfuðborginni London sem umferð hefur minnkað merkjanlega.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu bresks fyrirtækis; Car Loan 4U, sem sérhæft er í fjármálaráðgjöf fyrir bílakaupendur og birtir ráðgjöf sína á Netinu. Í skýrslunni segir að hátt í 40% bifreiðaeigenda hafi dregið úr akstri og 50% telji að stjórnvöld geri alls ekki nóg til að minnka kostnað bifreiðaeigenda. Ennfremur segir að um 20% bifreiðaeigenda eigi erfitt með að greiða fyrir nauðsynlegt viðhald og viðgerðir og loks ráði tíundi hver bíleigandi varla við að halda bílum sínum í nothæfu ástandi.
Síhækkandi eldsneytisverð er mesta áhyggjuefnið hjá 54% breskra bifreiðaeigenda og hækkandi tryggingaiðgjöld eru mesta áhyggjuefni 28% bifreiðaeigenda. Um 12% bifreiðaeigenda segjast farnir að nota almannasamgöngur til að spara eldsneytiskaup og stöðugjöld, en einmitt þetta síðastnefnda skýrir án efa minnkandi umferð í London og þá staðreynd að umferðin fór ekki í algeran hnút meðan á Ólympíuleikunum stóð, en við slíku höfðu flestir búist.