Brexit ógnar breskri Nissanverksmiðju
Nissan bílaverksmiðjan í Sunderland í Bretlandi er ein sú stærsta þar í landi og framleiðir um þriðja hvern bíl sem byggður er í landinu. Eftir að Bretar samþykktu útgöngu úr Evrópusambandinu í Brexitkosningunum ríkir óvissa um framtíð verksmiðjunnar í Sunderland.
Verksmiðjan er talin vera ein afkastamesta bílaverksmiðja í Evrópu. Meginframleiðsla hennar er jepplingurinn Nissan Qashqai sem fluttur er út að stærstum hluta til annarra Evrópusambandsríkja. Með útgöngu Breta úr sambandinu falla samningar um frjálsan útflutning milli ES-ríkja niður og ef Bretar ná síðan ekki sambærilegum samningum við sambandið er botninn í rauninni dottinn úr staðsetningu verksmiðjunnar í Bretlandi (og fleiri bílavereksmiðjum og iðnfyrirtækjum) og ef svo fer verður hún flutt frá Bretlandi til einhvers ES-ríkis..
Meðan þessi óvissa ríkir um framtíðina heldur Nissan að sér höndum með allar fjárfestingar í verksmiðjunni og bíður eftir niðurstöðum væntanlegra viðræðna um nýja viðskiptasamninga Bretlands og Evrópusambandsins.
Fastráðið starfsfólk Nissan verksmiðjunnar er um 6 700 manns. Íbúar Sunderland eru alls rúmlega 170 þúsund þannig að það skiptir borgarbúa mjög miklu máli hvort hún verður áfram í borginni eða flyst burt. Hún var byggð árið 1984 í stjórnartíð Margrétar Thatcher. Ríkisstyrkur var veittur til byggingar hennar. Hann var hluti áætlunar um að bæta atvinnu- og efnahagsástand í norðurhluta Bretlands sem þá var afleitt. Frá því að verksmiðjan var byggð hefur Nissan samtals fjárfest í henni yfir fjóra milljarða punda.
En þrátt fyrir mikilvægi verksmiðjunnar í atvinnu- og efnahagslífi Sunderland þá kemur það undarlega fyrir sjónir að í Brexit-atkvæðagreiðslunni greiddu 61% kjósenda í borginni atkvæði með útgöngu úr ES.