Breyta forgangsröðun og flýta framkvæmdum á umferðarþyngstu vegunum
Á ráðstefnu Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands í vikunni voru haldin fjölmörg fróðleg erindi um framtíð samgangna, loftslagsbreytingar, orkuskipti, samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og sambúð bíla og gangandi svo nokkuð sé nefnt.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti í dag ávarp á ráðstefnunni um áskoranir í samgöngum og fjallaði um það hvernig tekist væri á við þær áskoranir af hálfu stjórnvalda. Á vef ráðuneytisins kemur fram að ráðherra sagðist hafa frá því að hann kom í ráðuneyti samgöngumála lagt sérstaka áherslu á að breyta forgangsröðun og flýta framkvæmdum á umferðarþyngstu vegunum. Þannig hafi framlög til vegagerðar verið aukin umtalsvert með áherslu á umferðaröryggi. Þá fjallaði Sigurður Ingi um ólíkar áskoranir í dreifbýli og þéttbýli.
Í máli ráðherra kom fram að höfuðborgarsvæðið hafi þanist mikið út á síðustu áratugum með stóraukinni umferð. Helstu áskoranir á höfuðborgarsvæðinu væru af öðrum toga og tengdust töfum og umferðarþunga, loftmengun og nýjum áherslum í skipulagsmálum. Því hafi verið mikilvægur áfangi náðst í haust þegar undirritaður var samgöngusáttmáli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um mestu uppbyggingaráform á svæðinu í sögunni.
Sigurður Ingi fjallaði um áform um byggingu Sundabrautar. „Ein stærsta einstaka framkvæmdin í þessa átt er Sundabrautin, en hún bætir til mikilla muna aðgengi að megingáttum landsmanna. Greiðara aðgengi, minni umferðatafir og mengun verður fyrir þá sem þurfa að sækja vinnu og flytja vörur milli höfuðborgarsvæðisins og Vesturlands og Norðurlands. Ég hef því lagt áherslu á að taka frumkvæðið í Sundabrautarmálinu og hefur næsta skref verið tekið með því að leita liðsinnis Reykjavíkurborgar í þeirri vinnu,“ sagði Sigurður Ingi.