Breyting á innheimtu bifreiðagjalds

Um áramótin tóku gildi breytingar á aðkomu og eftirfylgni faggiltra skoðunarstöðva og Samgöngustofu við innheimtu bifreiðagjalds, samkvæmt breytingum á lögum nr. 39/1988 , um bifreiðagjald, sbr. lög nr. 139/2021 , þannig að innheimtuþáttur bifreiðagjalds verður nú að mestu leyti verkefni innheimtumanna ríkissjóðs. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samgöngustofu.

Breytingar þessar hafa m.a. í för með sér breytt verklag við nýskráningu bifreiða þannig að í stað þess að bifreiðagjald verði lagt á og greitt við nýskráningu fellur gjaldið í eindaga 15 dögum eftir nýskráningu og fer um innheimtu eftir hefðbundnum leiðum við innheimtu skatta og gjalda.

Sama á við um úttöku skráningarmerkis, þ.e. bifreiðagjald fellur í eindaga 15 dögum síðar. Með þessu breytta verklagi er verið að minnka beina aðkomu Samgöngustofu og skoðunarstöðva að álagningu og innheimtu opinberra gjalda.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laganna er óheimilt að skrá eigendaskipti að bifreið nema gjaldfallið bifreiðagjald hafi verið greitt. Sú breyting er gerð samkvæmt lögunum að gjaldið verður endurgreitt eða eftir atvikum fellt niður í hlutfalli við þann tíma sem eftir er af yfirstandandi tímabili til og með skráningardegi eigendaskipta.

Gjaldskylda flyst jafnframt yfir á kaupanda vegna þess tíma sem eftir stendur af gjaldtímabilinu með eindaga 15 dögum frá skráningardegi að því fram kemur í tilkynningunni.

Jafnframt er gerð sú breyting að skoðunarstöðvum verður ekki lengur skylt, sé bifreiðagjald ógreitt við aðalskoðun, að taka skráningarmerki af bifreiðum og afhenda þau lögreglustjóra.

Áfram er í gildi sú regla að hafi bifreiðagjald ekki verið greitt fyrir eindaga þá er innheimtumanni ríkissjóðs heimilt að fara fram á það við lögreglustjóra að fjarlægja skráningarmerki af bifreið og skal hann ekki afhenda skráningarmerki á ný fyrr en færðar hafa verið sönnur á greiðslu bifreiðagjalds.

Fram kemur að ofangreindar breytingar á lögunum tóku gildi um áramótin og náðist ekki með svo skömmum fyrirvara að taka upp breytt verklag fyrr en búið var að gera nauðsynlegar breytingar á álagningarkerfi bifreiðagjalds. Stefnt er að því að þann 1. febrúar nk. muni breytt verklag taka gildi og er markmiðið að breytingarnar muni hafa í för með sér einföldun fyrir skoðunarstöðvar og Samgöngustofu svo og eigendur bifreiða.

Ef fyrirspurnir vakna um framangreindar breytingar eða þau eigendaskipti sem gerð hafa verið í janúar má beina þeim til Skattsins á tölvupóstfangið trukkur@skatturinn.is .