Breyting á lögum liðkar fyrir rafbílavæðingu landsins
Ríkisstjórnin hefur samþykkt frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra, um breytingar á lögum um fjöleignarhús með það að markmiði að liðka fyrir rafbílavæðingu landsins í samræmi við stefnu stjórnvalda um orkuskipti. Frumvarpinu er ætlað að draga úr óvissu varðandi þær reglur sem gilda um hleðslubúnað fyrir rafbíla í fjöleignarhúsum.
Í frumvarpinu kemur fram að það mun einfalda alla umgjörð varðandi hleðslustöðvar í fjölbýlishúsum og afnema hindranir sem hafa verið til staðar. Sem dæmi má nefna að almennt mun eigandi íbúðar ekki þurfa að fá samþykki annara eigenda til þess að koma upp hleðslubúnaði fyrir rafbíla, nema það leiði til þess að meira en helmingur bílastæða verði eingöngu til notkunar fyrir rafbíla. Hleðslubúnaður og annar tengibúnaður skal uppfylla allar þær kröfur sem til hans eru gerðar og er gerð krafa um að löggiltur rafverktaki annist uppsetningu á hleðslubúnaðnum.
Gert er ráð fyrir að eigandi beri kostnað af uppsetningu hleðslubúnaðar við fjölbýlishús, sé um séreign hans að ræða. Þar sem um sameign er að ræða er hins vegar gert ráð fyrir sameiginlegum kostnaði allra þeirra eigenda sem hafa heimild til afnota af viðkomandi bílastæði, hvort sem bílastæðið er áfram nýtt sem almennt bílastæði eða eingöngu til hleðslu rafbíla. Minni hluti eigenda getur í undantekningartilfellum krafist þess að framkvæmdum verði frestað í allt að tvö ár á meðan safnað verði fyrir þeim í sérstakan framkvæmdasjóð. Þá hafa húsfélög heimild til að krefjast hóflegrar mánaðarlegrar þóknunar frá þeim eigendum sem nýta hleðslubúnað fyrir rafbíla.
Haft er eftir Ásmundi Einari Daðasyni, félags-og barnamálaráðherra á vef stjórnarráðsins að rafmagnsbílar verða sífellt algengari á götum landsins og það var svo sannarlega kominn tími til að gera breytingar á lögunum til þess að endurspegla það betur. Þær breytingar sem við gerum á lögunum nú gerir það einfaldara fyrir íbúa fjölbýlishúsa að setja upp hleðslustöðvar við sín eigin bílastæði. Við erum á miðri leið inn í orkuskiptin og þessi breyting er ein af mörgum vörðum á þeirri leið.