Breytingar á reglugerð um ökuskírteini í samráðsgátt
Í nýjum umferðarlögum sem tóku gildi um síðustu áramót eru margvíslegar breytingar sem kalla á endurskoðun reglugerða. Meðal þess sem breyttist í umferðarlögunum eru ákvæði um ökukennslu, æfingaakstur og heilbrigðisskilyrði fyrir ökuréttindi.
Einnig kveða nýja lögin á um að við endurnýjun ökuréttinda eftir sviptingu skuli sækja sérstakt námskeið hjá Samgöngustofu. Sömuleiðis að neita megi þeim um ökuskírteini sem háður er notkun áfengis.
Drög að reglugerð um breytingar á reglugerð nr. 830/2011 um ökuskírteini hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 24. janúar 2020.
+ Skoða drög að reglugerð í samráðsgátt
Helstu tillögur að breytingum
- Lagt er til að með umsókn um ökuskírteini eftir sviptingu ökuréttar skuli fylgja staðfesting þess að umsækjandi hafi sótt námskeið í þeim tilvikum þegar ökumaður hefur verið sviptur ökuréttindum í annað sinn vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
- Lagt er til að nám eftir sviptingu í annað sinn vegna aksturs undir áhrifum verði 6 bóklegar kennslustundir og að viðkomandi skuli sitja ökupróf að nýju.
- Lagt er til að tekið sé fram að bóklegt ökunám megi fara fram rafrænt.
- Lagt er til að leyfi til æfingaaksturs með leiðbeinanda megi gefa út til 18 mánaða í stað 15 mánaða eins og var skv. þágildandi umferðarlögum.
- Lagt er til að umsækjandi um ökuskírteini skuli skila inn staðfestingu ökukennara á fullnægjandi árangri í akstursmati.
- Lagt er til að forstjóri Samgöngustofu skipi trúnaðarlækni til fimm ára sem ber ábyrgð á mati á aksturshæfni. Þá er lagt til að stofnuninni verði heimilt að gera samning við fleiri en einn lækni til að gegna starfinu. Lagt er til að trúnaðarlæknir hafi hreint sakavottorð, almennt lækningaleyfi og víðtæka þekkingu og reynslu í læknisfræði.
- Lagt er til að lögregla í stað sýslumanns afturkalli ökuréttindi þegar við á.
- Lagt er til að sett verði inn heimild til að neita þeim um starfsleyfi ökukennara sem gerst hafa sekir um kynferðisbrot.
- Ný umferðarlög gera ekki ráð fyrir því að ökukennarar skili inn virknivottorði við umsókn um endurnýjun leyfis. Því er lagt til að ökukennari skuli þreyta próf í ökukennslu, sé meira en ár liðið frá því að starfsleyfi féll úr gildi.
- Lagt er til að fjöldi kennslustunda í endurmenntun ökukennara verði a.m.k. 16 í stað þess að vera 35 í 7 stunda lotum.
- Lagt er til að sett verði inn bráðabirgðaákvæði sem heimilar tímabundið útgáfu starfsleyfa til þeirra ökukennara sem ekki hafa lokið endurmenntun við gildistöku reglugerðarinnar.