Bush vill sparneytnari bíla

http://www.fib.is/myndir/Chevroavalanche.jpg
Stórir pallbílar á undanhaldi í USA.

Bandaríska alríkisstjórnin undir forystu Bush forseta hefur lagt fram nýtt lagafrumvarp í þinginu um að herða á þróun í átt til eyðslugrennri bíla.  Gamla markmiðið að meðaleyðsla nýrra bíla verði komin niður í 35 mílur á gallon árið 2020, sem svarar til 6,7 lítra eyðslu á hundrað km, er áfram í nýja frumvarpinu. Nú á hins vegar að slá í klárinn því  bílaframleiðendur eiga að koma eyðslunni í tröppugangi niður á við í áföngum. Þannig á árið 2015 að vera búið að koma meðaleyðslu nýrra bíla niður 31,8 mílur á galloni (7,4 l/100 km).

Í forsetatíð sinni hefur Bush lengst af vísað öllum kröfum á bug um það að draga úr eldsneytisnotkun Bandaríkjamanna. Nú þegar forsetatíð hans er senn á enda söðlar hann um og krefst þess að slegið sé duglega í klárinn og vill að frumvarpið verði orðið að lögum strax í haust, áður en hann lætur af forsetaembættinu. Í evrópskum fjölmiðlum sem segja frá þessu er gamalt orðatiltæki úr mörgum tungumálum haft í flimtingum. Það orðatiltæki er eitthvað á þá leið að þegar Skrattinn gerist gamall, gerist hann heilagur.

Samkvæmt nýja frumvarpinu skal meðaleyðsla nýrra fólksbíla árið 2015 vera komin niður í 6,6 l/100 km. Meðaleyðsla þeirra bíla sem kallast „trucks" (pallbílar og jeppar) skal vera komin niður í 8,2 l/100 km. Þetta er að meðaltali 7,4 l/100 km. Til samanburðar var meðaleyðsla nýrra fólksbíla, pallbíla og jeppa 8,8 l/100 km árið 2007.

Umhverfissinnar fagna lagafrumvarpinu hóflega og benda á að 16 ríki, þeirra á meðal Kalifornía, hafa sóst fast eftir breytingu á alríkislögum sem heimila þeim að gera mun strangari kröfur en felast í stjórnarfrumvarpinu, eða einungis 5,4 l meðaleyðslu bíla fyrir árið 2016. Allir sterkustu forsetaframbjóðendurnir – Clinton, McCain og Obama – hafa lýst stuðningi við það markmið.

En til að markmið bæði frumvarps forsetans og Kaliforníuríkis nái fram að ganga verða bandarískir bílar að verða minni en þeir nú eru og með aflminni vélum sem nýta eldsneytið betur en bandarískar vélar. Stórir pallbílar og jeppar hafa verið rúmur helmingur seldra nýrra bíla í Bandaríkjunum undanfarin mörg ár. Með ofurháu og hækkandi eldsneytisverði hefur sala þeirra verið að dragast saman að undanförnu og sala minni bíla að aukast.