Byggðastofnun tekur þátt í uppbyggingu Iceland Motopark
Stjórn Byggðastofnunar ákvað á fundi sínum 27 apríl síðastliðin að lána allt að 200 milljónum kr. til uppbyggingar á fyrsta áfanga Iceland Motopark svæðisins í Reykjanesbæ. Um er að ræða langtímafjármögnun á þessum fyrsta áfanga verkefnisins og gert er ráð fyrir að svæðið, sem er samtals um 7 hektarar, verði fullbyggt í lok ársins.
Í þessum fyrsta áfanga hins fyrirhugaða aksturssvæðis verður meðal annars byggð Go-kart braut á heimsmælikvarða ásamt þjónustubyggingu sem hýsir m.a. kennslustofur, aðstöðu fyrir ökukennara, veitingasölu ofl. Hönnun brautarinnar hefur nú þegar hlotið samþykki CIK-FIA, alþjóðasambands akstursíþrótta.
Ennfremur verður þarna ökugerði með tilheyrandi brautum til að þjálfa ökunema í akstri við mismunandi aðstæður. Ökugerðið verður í samræmi við nýja reglugerð sem tekur gildi 1. janúar 2008 um að allir sem fá ökuréttindi verði að hafa hlotið akstursþjálfun í ökugerði. Stefnt er að því að ökugerðið verði tilbúið áður en reglugerðin gengur í gildi.
Vilhjálmur Vilhjálmsson framkvæmdarstjóra Iceland Motopark segir ákvörðun Byggðastofnunar vera mikilvægan áfanga í langtímafjármögnun þessa hluta svæðisins og muni hafa mjög jákvæð áhrif á heildarverkefnið auk þess að vera viðurkenning á því hvernig að málefnum aksturssvæðisins hefur verið staðið til þessa. Gert er ráð fyrir því að þegar lokið hefur verið uppbyggingu alls svæðisins verði þar til allt að 300 ný störf.