Bygging nýrrar Ölfusárbrúar í uppnámi
Bygging nýrrar Ölfusárbrúar hefur verið í umræðunni að undanförnu og virðist sem svo að bygging hennar sé í uppnámi. Ein ástæðan er sú að illa gengur að mæta því skilyrði Alþings að veggjöld standi undir kostnaði.
Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2 og þar sagði Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi samgönguráðherra, að nýja Ölfusárbrú allt of dýra í þeirri mynd sem hún er áformuð og fullyrðir að hægt sé að smíða einfaldari brú á mun skemmri tíma fyrir þriðjung af kostnaðinum.
„Ég tel að svona stórkarlaleg framkvæmd, eins og hún blasir við okkur þarna, muni taka mjög langan tíma. Hún verður erfið í fjármögnun og veggjöld verða hlutfallslega mjög dýr yfir hana. Mín skoðun er sú að menn eigi bara að girða sig í brók, byggja þarna venjulega brú, sem mun kosta sennilega innan við þriðjung, jafnvel fjórðung, af þessu mannvirki sem þarna á að rísa,” segir þingmaðurinn og bendir á að ódýrari brú þýddi lægri veggjöld,“ sagði Jón Gunnarsson á Stöð 2.
Tilboð í samkeppnisútboði vegna hönnunar og byggingar brúar yfir Ölfusá voru opnuð í dag, þriðjudaginn 12. mars. Eitt tilboð barst í verkið frá ÞG verktökum ehf.
Vegagerðin auglýsti alútboð vegna hönnunar og byggingar nýrrar brúar yfir Ölfusá á Evrópska efnahagssvæðinu þann 3. mars 2023. Um er að ræða samkeppnisútboð samkvæmt 36. gr. laga um opinber innkaup. Þann 18. apríl 2023 voru opnaðar umsóknir og bárust umsóknir frá fimm þátttakendum sem allir uppfylltu þau skilyrði sem sett voru í útboðsauglýsingunni og voru metnir hæfir. Þessir aðilar fengu send útboðsgögn vegna samkeppnisútboðsins í lok nóvember 2023.
ÞG verktakar ehf. voru þeir einu af þessum fimm aðilum sem skiluðu inn tilboði. Um er að ræða upphafstilboð. Vegagerðin fer yfir tilboðið og stefnt er að því að fara í samningsviðræður við ÞG verktaka. Að þeim loknum verður gefin upp upphæð endanlegs tilboðs.
Áætlaður kostnaður við brúna var talinn verða allt að 8 milljarðar króna. Í þessari umræðu hafa margir bent á að kostnaðurinn verði mun hærri þegar upp verður staðið.