Cadillac lækkar sölumarkmið sitt í Evrópu um helming

The image “http://www.fib.is/myndir/Cadillac-BLS.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Cadillac BLS - kemur á Evrópumarkað í þessum mánuði.

Í þessum mánuði hefst sala á nýja Evrópu-Cadillac bílnum, Cadillac BLS. Billinn er byggður í verksmiðju Saab í Trollhattan og innviðir hans eru að miklu leyti þeir sömu og í Saab 9-3. Eins og skýrt hefur verið frá hér á vefnum gaf GM upphaflega út að markmiðið væri 20 þúsund eintaka árleg sala á Cadillac í Evrópu frá 2010. Eitthvað hefur bjartsýnin dofnað því að nú segir Malcolm Wade sölustjóri fyrir Cadillac og Corvette í Evrópu við Detroit News að ætlunin sé að selja helmingi færri bíla, eða einungis 10 þúsund eintök, sjö þúsund af Cadillac BLS og afgangurinn, þrjú þúsund bílar skiptist nokkuð jafnt milli Cadillac CTS, STS, SRX og Escalade.

Cadillac BLS er hannaður í Evrópu og átti hann að verða sá bíll sem ryður Cadillac merkinu braut og rúm í álfunni. Bílnum er ætlað að höfða sérstaklega til þess hóps bílakaupenda sem rennir hýru auga til þýsku lúxusbílamerkjanna Mercedes, BMW og Audi og það verður að segjast miðað við þessa nýjustu söluáætlun að bjartsýni GM manna hefur nokkuð hófstillst.

Malcolm Wade segir við Detroit News að hann vilji einkum ná til þeirra Evrópubúa sem orðnir eru þreyttir á þvi að kaupa sí og æ, ár eftir ár nýja þýska lúxusbíla og vilji nú einhverja tilbreytingu. Þetta finnst ýmsum evrópskum bílamarkaðsfræðingum vera sérkennilegt tal og benda á að kaupendur áðurnefndra þýskra bílamerkja séu bara alls ekki þreyttir á bílum sínum heldur þvert á móti mjög tryggir og verði ekki svo auðveldlega lokkaðir með öðrum bílategundum.

Sem dæmi um þetta nefnir Peter Schmidt aðstoðarforstjóri Automotive Industry Data (AID) í Bretlandi að ímynd sé mjög mikilvægur þáttur í Þýskalandi við kaup á nýjum bílum. Af því hafi markaðsmenn Jaguar fengið rækilega að súpa seyðið þegar þeir reyndu að lokka Þjóðverja með lúxusbílnum Jaguar X með litlum, nánast engum árangri. Hann bendir einnig á að Lexus hefur verið á markaði í Evrópu í 17 ár en eftir allan þann tíma seljist einungis 29 þúsund bílar á ári í álfunni. Þetta segi sína sögu um tryggð Evrópubúa, ekki síst Þjóðverja við þýsku lúxusmerkin. Og þetta segi líka sína sögu í öðru tilliti, því að alþekkt staðreynd sé að gæði Lexusbíla séu í sérflokki og enginn dragi það í efa - ekki einusinni Þjóðverjar.

Malcolm Wade svarar þessu þannig að fráleitt sé að bera saman Lexus og Cadillac með þessum hætti því að Lexus hafi verið algerlega óþekkt merki í upphafi og fólk ekkert vitað og viti jafnvel ekki enn hvort Lexus sé kannski garðsláttuvél eða þá pallbíll. Cadillac sé á hinn bóginn heimsþekkt gæðavörumerki sem muni ná til þeirra sem þori að vera öðruvísi en aðrir.

Peter Schmidt er ekki jafn bjartsýnn og segir að það sé mjög vond ákvörðun að ætla að keppa við þýsku lúxusbílaframleiðendurna á þeirra eigin heimavelli. Tíminn muni leiða það í ljós.