Chery í Kína hefur náð 800,000 bíla markinu

http://www.fib.is/myndir/Chery_qq6.jpg
Chery QQ6.


Kínverska bílaframleiðslufyrirtækið Chery lauk nýlega við að byggja bíl númer 800 þúsund. Chery er fyrsta kínverska bílaframleiðslufyrirtækið að ná þessu marki. Áttahundruðþúsundasti bíllinn er af gerðinni Chery QQ6 sem í Kína er kallaður „Kínafólksvagninn.“

Chery var stofnað árið 1997 í Anhui héraðinu og er eina kínverska bílaverksmiðjan sem ekki er í ríkiseigu. Síðasta ár framleiddi Cheri 305.200 bíla miðað við 189.000 árið á undan. Vöxturinn hefur verið ævintýralega hraður og sem dæmi um það var ársframleiðslan „einungis“ 50,000 árið 2002.

Chery fyrirtækið er samningsbundið við Chrysler um að framleiða Chryslerbíla fyrir bæði Bandaríkja- og Evrópumarkað en þar sem Chrysler er nú til sölu er óvíst um framhald þess samnings. Langmest af bílaframleiðslu Chery fer á markað í Kína en á síðasta ári voru fluttir út alls um 50 þúsund bílar. Búist er við helmingsaukningu á þessu ári.

Verksmiðjur Chery ganga nú á sem næst fullum afköstum en árleg framleiðslugeta er 350.000 bílar, 400.000 bílvélar og 300.000 gírkassar.