Chery Tiggo frá Napólí
Chery DR5 eða Chery Tiggo eins og hann nefnist í Kína.
Fyrsti Kínabíllinn sem settur er saman í Evrópu er farinn að renna af færiböndunum. Þetta er jepplingur af tegundinni Chery. Í Kína heitir bíllinn Chery Tiggo 3 en í Evrópu fær hann gerðarheitið DR5. Í fyrstu er ætlunin að framleiða 12 þúsund bíla á ári en auka á framleiðsluna upp í 40 þúsund bíla fram til 2010. Chery DR5 eða Tiggo 3 er byggður í bílaverksmiðju í smábænum Macchia d'Isernia skammt frá Napólí á Ítalíu.
Chery DR5 eða Tiggo 3 er jepplingur og svipar til Toyota RAV-4. Hann er tæpir 4,3 m að lengd, 1,72 á hæð og 1,77 á breidd. Lengd milli hjólása er 2,5 m. Í honum er fjögurra strokka 1,6 l, 110 ha. bensínvél ættuð frá Mitsubishi. Væntanleg er einnig 1,9 l 120 ha. dísilvél. Dekkin eru að stærð 235/65R16.
Með bensínvélinni kostar bíllinn 16.900 evrur á Ítalíu euro og dísilútgáfan er á 21.900 evrur. Chery DR5 kemur á spánskan, þýskan og franskan bílamarkað eftir áramótin. Loks hafa Kínverjar boðað að framleiðsla hefjist á næsta ári þriggja dyra gerð bílsins sem hefur gerðarheitið CR3. Sá nefnist í heimalandinu Kína, Chery UFO.
Chery bílaframleiðslan hófst árið 1999 og hefur síðan vaxið gríðarlega. Í ágústmánuði sl. rann bíll númer milljón af færibandinu og miðað við þann vöxt sem á framleiðslunni er gæti verið stutt í bíl númer 2 milljónir.