Chevrolet Aveo fær tæplega tvær stjörnur í árekstursprófi EuroNCAP
Claes Tingvall.
Þann áratug sem EuroNCAP hefur starfað við að öryggisprófa nýja bíla hafa miklar framfarir orðið hjá bílaframleiðendum og bílar hafa stöðugt orðið öruggari. Fleiri og fleiri bílategundir og -gerðir standast hið staðlaða áreksturspróf betur og betur og ná hæstu öryggiseinkunn sem eru fimm stjörnur. Nú er svo komið að að bæði forsvarsmenn EuroNCAP og þeir bílaframleiðendur sem gera miklar öryggiskröfur til bíla sinna hafa sýnt áhuga á að bæta sjöttu stjörnunni við einkunnaskalann fyrir allra öruggustu bílana.
En þótt mikill árangur hafi orðið af starfi EuroNCAP sem leitt hefur til öruggari bíla og færri dauðaslysa og alvarlegra slysa á fólki, þá eru enn framleiddir og seldir bílar sem alls ekki eru öruggir. Þetta sýnir sig í dag þegar EuroNCAP tilkynnir úrslit í síðustu prófunarlotu sinni. Það hefur komið á daginn, því miður, að enn eru bílaframleiðendur að störfum sem eiga mjög langt í land hvað öryggi varðar.
Af þeim sex bílum sem nú hafa verið öryggisprófaðir náðu aðeins tveir fimm stjörnum fyrir öryggi fólksins í bílnum.
Claes Tingvall, stjórnarformaður Euro NCAP sagði þegar niðurstaðan var kynnt fyrir stundu að ánægjulegt væri að tveir bílar hefðu að þessu sinni reynst vera fimm stjörnu bílar. Stöðugt fleiri bílaframleiðendur legðu sig nú í framkróka með að byggja bílana þannig að þeir stæðust vel öryggispróf EuroNCAP og framtak þeirra væri lofsvert.
„En við viljum áfram hvetja til þess að bílar verði sem öruggastir og því markmiði er hvergi náð. Það er enn verk að vinna. EuroNCAP ætlar hér eftir sem hingað til miðla bestu upplýsingum til almennings sem völ er á um öryggi bíla og hvað er í boði í þeim efnum,“ sagði Claes Tingvall.
Af þeim bílum sem nú hafa verið öryggisprófaðir sker Chevrolet Aveo síg úr hjá Euro NCAP vegna þess að hætta fyrir ökumann á banvænum meiðslum á brjóstholi er óásættanlega mikil, verði framaná-árekstur. Vegna þessarar hættu er önnur stjarnan sem bíllinn fær gegnumstrikuð. Það þýðir að bíllinn nær ekki einu sinni tveimur stjörnum.
EuroNCAP prófar bílana í tvenns konar framaná-árekstrum og hliðarárekstrum. Bílarnir þurfa að standast ákveðnar lágmarkskröfur í hverri þessara árekstursgerða um sig. Enda þótt Aveo nái í samanlögðu þeim heildar stigafjölda sem þarf til að fá þrjár stjörnur þá gerir Euro NCAP þá skýlausu kröfu að bílar verði að ná lágmarks stigafjölda í hverjum einstökum prófunarþætti um sig, það er að segja báðum framaná-árekstrunum og hliðarárekstrinum. Aveo stóð sig vel gagnvart árekstri frá hlið. Gagnvart framaná-árekstrum stóð hann sig hins vegar það illa að ekki þótti verjandi að gefa honum þrjár stjörnur heldur einungis tvær og með fyrirvara þó.
En þótt Chevrvolet Aveo stæði sig með þessum hætti var hann ekki sá eini. Kia Cerato stóð sig illa gagnvart hliðarárekstri og mikil hætta reyndist vera á brjóstholsmeiðslum.
Öðru máli gegndi með Peugeot 207 og bætist hann nú í góðan og vaxandi hóp fimm stjörnu smábíla. Öryggispróf Euro NCAP hvað varðar öryggi fullorðinna í bílnum hafa sannað að jafnvel minnstu bílarnir geta verið meðal þeirra öruggustu á evrópskum vegum.
Alfa Romeo 159 kom einnig mjög vel út og hlaut fimm stjörnur fyrir vernd fullorðinna. Bíllinn fyrsti Alfa Romeo bíllinn sem nær fimm stjörnum hjá EuroNCAP fyrir vernd fullorðinna í bílnum. Áhyggjuefni þótti hins vegar að bíllinn hlaut aðeins eina stjörnu fyrir vernd fótgangandi sem fyrir honum verða.
„Það gleður mig að sjá Alfa Romeo bætast í hóp fimm stjörnu bíIa hvað varðar vernd fullorðinna í bílnum en veldur mér vonbrigðum að ekki skuli hafa verið betur hugað að öryggi fótgangandi. Það eru að verða skörp skil milli þeirra bílaframleiðenda sem markvisst vilja auka öryggi gangandi fólks og þeirra sem líta á það sem afgangsmál. Þegar auðvelt er að gera bíla öruggari fyrir fótgangandi án nokkurrar dýrrar hátækni heldur einungis með tækni sem þegar er notuð í bílum þá er það óafsakanlegt að þessi þáttur skuli vera hundsaður svo mjög sem raunin er. Það er óafsakanlegt að bílar skuli ekki vera jafn öruggir fyrir alla sem í umferðinni eru,” sagði Claes Tingvall.
Chevrolet Aveo er uppfærð útgáfa af Chevrolet/Daewoo Kalos. Á sínum tíma var var EuroNCAP tilkynnt að hætt yrði að framleiða Kalos og að Aveo myndi leysa hann af hólmi. Eitthvað hefur það breyst því Kalos verður áfram framleiddur til 2008 sem þriggja og fimm dyra einrýmisbíll. Aveo verður aðeins framleiddur sem stallbakur. Framleiðandinn lét í veðri vaka við EuroNCAP að með uppfærslunni á Kalos í Aveo væri m.a. komið til móts við öryggiskröfur EuroNCAP. EuroNCAP dregur af þessu tilefni þá ályktun að öryggi Kalos-gerðarinnar sé enn rýrara en hjá Aveo. Allavega var öryggisprófunin gerð á stallbaksbíl og enganveginn sé hægt að fullyrða að árangur verði betri á frumgerðinni sem er þriggja/fimm dyra einrýmisbíll.
Helstu niðurstöður
Alfa Romeo 159
Vernd fullorðinna í bílnum: 5 stjörnur
Vernd barna í bílnum: 4 stjörnur
Vernd fótgangandi utan bíls: 1 stjarna
Kia Cerato
Vernd fullorðinna í bílnum: 3 stjörnur
Vernd barna í bílnum: 3 stjörnur
Vernd fótgangandi utan bíls: 1 stjarna
Chevrolet Aveo
Vernd fullorðinna í bílnum: 2 stjörnur (gegnumstrikað)*
Vernd barna í bílnum: 3 stjörnur
Vernd fótgangandi utan bíls: 3 störnur
Peugeot 207
Vernd fullorðinna í bílnum: 5 stjörnur
Vernd barna í bílnum: 4 stjörnur
Vernd fótgangandi utan bíls: 3 stjörnur
Suzuki SX4
Vernd fullorðinna í bílnum: 4 stjörnur
Vernd barna í bílnum: 3 stjörnur
Vernd fótgangandi utan bíls: 3 stjörnur
Hyundai Tucson
Vernd fullorðinna í bílnum: 4 stjörnur
Vernd barna í bílnum: 3 stjörnur
Vernd fótgangandi utan bíls: 1 stjarna
Athugasemdir:
1. Gegnumstrikun er til að vekja athygli á alvarlegri hættu á lífhættulegum áverkum. Hvað varðar Chevrolet Aveo þá er það ökumaðurinn sem er í hættu á að hljóta lífshættulega áverka við framaná-árekstur á 64 km hraða.
2. Meðal samtaka og stofnana sem þátt taka í EuroNCAP eru samgönguráðuneyti Svíþjóðar, Hollands, Frakklands, Þýskalands, Bretlands og Katalóníu á Spáni, FIA Foundation, Allgemeiner Deutscher Automobil-Club (ADAC), Thatcham fyrir hönd British Motor Insurers og International Consumer Research and Testing (ICRT) fyrir hönd Evrópusamtaka neytendafélaga. Loks styrkir Evrópuráðið starf EuroNCAP.