Chevrolet Corvette sextug

 -Little red Corvette, söng Prince hér um árið og ekki tilefnislaust, því að Chevrolet Corvette er ein af táknmyndum Bandaríkjanna og dáður í heimalandinu og víðar um heim fyrir útlit og afl. Á þessu ári verða liðin 60 ár frá því Corvette kom fyrst á markað og í tilefni af því hefur Chevrolet sett á markað Corvette 427 Convertible Collector's Edition. Skammt er svo í kynningu á C7, sjöundu kynslóð þessa rómaða sportbíls sem verður kynnt á bílasýningunni í Detroit sem opnar fyrir almenning 19. janúar næstkomandi.

Corvette er hluti af bandarískri menningu og í gegnum tíðina hefur bíllinn verið boðberi nýrrar tækni. Dæmi um þetta frá síðustu áratugum eru svokallaðir run-flat hjólbarðar, sem gera ökumanni kleift að aka bílnum áfram þótt springi á hjólbarða, upplýsingaskjár í framrúðunni, nýjungar í fjöðrunarkerfi svo fátt eitt sé nefnt.

http://www.fib.is/myndir/Corvette-C-7.jpg
Hin nýja Corvette C7 sem sýnd verður á
bílasýningunni í Detroit 19. jan. nk.

Corvette 427 Convertible Collector's Edition var sérsmíðaður til að minnast 60 ára afmæli þessa goðsagnakennda sportbíls. Hann er hraðskreiðasti Corvette sem nokkru sinni hefur verið smíðaður og er hlaðinn hátæknibúnaði sem jafnan hefur fylgt nýjum gerðum bílsins.

Miklar breytingar eru líka í vændum þegar 2014 árgerð Chevrolet Corvette C7 verður kynnt síðar í þessum mánuði. Hann verður með minni og sparneytnari V8 vél en aflið verður það sama, 430 hestöfl, eða jafnvel meira, en í núverandi 6,2 lítra vél. Sumstaðar er talað um að 440 hestöfl náist út úr vélinni sem verður með 5,5 lítra slagrými að miklu leyti smíðuð úr áli. Yfirbyggingin verður straumlínulagaðri og allt hefur verið gert til að létta bílinn sem leiðir til betri aksturseiginleika og minni eldsneytiseyðslu.

Fundvísir blaðamenn hafa séð til tveggja frumgerða nýju kynslóðarinnar þar sem þeir voru prófaðir í fimbulkulda í Norður-Kanada. Þrátt fyrir að hafa verið feluklæddir þóttust menn strax sjá að yfirbygging næstu kynslóðar bílsins verður mun straumlínulagaðri en áður og hjólhafið nokkrum sentimetrum meira.

Minni en aflmeiri vél og minni þyngd þar af leiðandi, og sjö gíra beinskipting ætti að tryggja nýjum Corvette áberandi stall á meðal helstu sportbíla heims. Í núverandi gerð hraðar hann sér úr kyrrstöðu í 100 km á klst á 4 sekúndum og með minni þyngd, aflmeiri vél og öðrum tækniframförum má búast við að hröðun C7 fari undir 4 sekúndur.