Chevrolet sem eyðir næstum engu
Á bílasýningunni í Detroit sem nýlega er lokið sýndi General Motors frumgerð sportbílsins Chevrolet Volt. Bíllinn er nokkurskonar tvinn- eða tvíorkubíll þótt talsmenn GM vilji ekki við það kannast og segja bílinn vera rafbíl með bensínknúinni ljósavél. Allt um það þá völdu sýningargestir og um 2000 lesendur Detroit News þennan bíl umhverfismildasta bíl ársins. Hann er byggður á undirvagni sem auðveldlega má byggja ofan á margskonar aðrar útfærslur en sportbílsútfærslu þá sem sýnd var í Detriot.
Aðalhönnuður bílsins er hin 34 ára Theresa Tant. Hún þykir vera einn frumlegasti og besti bílahönnuður samtímans ekki síst hvað varðar hönnun þar sem hagkvæmni og notagildi er í forsæti.
Vélbúnaður bílsins er í stórum dráttum þannig að aðalvélin er 160 hestafla rafmótor sem fær orkuna frá rafgeymum. Til að sjá rafgeymunum og rafmótornum fyrir „eldsneyti“ er í bílnum lítill 1000 rúmsm þriggja strokka bensínmótor með túrbínu. Bensínmótorinn er ekki í neinu beinu sambandi við gírkassa eða hjól heldur knýr hann 53 kílówatta rafal sem hleður inn á geymana þegar lækka tekur á þeim. Geymarnir rúma nóg rafmagn til að aka 60 kílómetra og þegar á áfangastað er komið er hægt að stinga í samband. Það tekur rúmar 6 klst að fullhlaða tóma geymana með því að stinga í samband við heimilisstrauminn en ljósamótorinn er talsvert sneggri að því. Ef bíllinn væri mest notaður til styttri vegalengda innanbæjar væri einvörðungu hægt að aka á rafmagni úr næstu innstungum og án þess að brenna dropa af bensíni.
En sé nú innanbjaraksturinn meiri en sem svarar til 60 km á dag segja talsmenn GM að bensíneyðslan gæti verið ca. 1,6 lítrar á hundraðið. Á lengri vegalengdum milli byggðarlaga yrði hún eðlilega meiri eða í kringum 4,8 l á hundraðið. Vinnuhringur bílsins (sú vegalengd sem hann kemst án þess að stinga honum í samband við straum eða bæta bensíni á tankinn) sé um 1000 kílómetrar.
Theresa Tant segir í samtali við tímarit danska iðnaðarins að megináhersla hennar í hönnun bílsins hafi verið á að bíllinn megi ekki verða dýrari í framleiðslu en hefðbundnir sambærilegir bílar og hann verði að hafa stærri vinnuhring en þeir sömuleiðis. Það þýði að rafhlöðurnar verði að geyma í sér mun meiri straum en hefðbundnir blýrafgeymar, vera mun endingarbetri, taka fljótar hleðslu og þola vel að tekið sé hratt út af þeim.
Ljósavélin í frumgerðinni sem sýnd var í Detroit er þriggja strokka EcoTec bensínvél, þekkt frá Opel Corsa, sem getur gengið á etanóli jafnt og bensíni. Alveg eins og ekkert síður er hægt að hafa dísil-ljósavél í honum.
Hönnuðurinn segist hafa notað mjúk efni í innréttingu bílsins til að draga úr hættu á meðslum ef óhapp verður. Um innréttinguna sjálfa kveðst hún hafa haft samvinnu við töskuframleiðandann Samsonite og það samstarf muni halda áfram um þróun innréttinga í framtíðarbílum GM.