Chevrolet Spark
Vegna ofurhárra skráningargjalda sem lögð eru á nýja bíla í Danmörku og flókinna reglna um þau, halla Danir sér mjög að litlum, ódýrum og einföldum bílum og hafa gert í áratugi. Um þessar mundir er það smábíllinn frá S. Kóreu; Chevrolet Spark sem er söluhæsti bíllinn í Danmörku.
Í Chevrolet Spark telja danskir bílakaupendur sig fá talsvert mikið fyrir fremur litla peninga, en ódýrasta gerð Spark kostar út úr búð í Danmörku um 89.600 eða rúmar 1.960.000 ísl kr. sem er lítilsháttar hærra verð en hér á landi. Í Danmörku, þar sem kaupmáttur er verulega meiri en hér, þykir þetta alls ekki hátt verð fyrir nýjan bíl.
Danir hafa lengi sætt sig við hin ofurháu skráningargjöld sem stigmagnast, þeim mun betur búinn bíllinn er. Það er svo vegna þess að skráningargjöldin eru ákvörðuð út frá ódýrustu og einföldustu gerð viðkomandi bíls. Atriði eins og stærri vél, sjálfskipting, AC hita- og loftræstikerfi, og jafnvel aflstýri er allt skattlagt sérstaklega hvert um sig, það er að segja ef það ekki fyrirfinnst í einföldustu staðalgerðinni. En Danir geta sjálfsagt sætt sig við þessa ofurskattlagningu þar sem þeir búa í litlu og greiðfæru landi með mjög þéttriðið net almannasamgangna. Fyrir mjög marga er því heimilisbíll engin sérstök nauðsyn, í það minnsta fyrir þá sem búa í þéttbýli.
Í þessu ljósi er þá betur skiljanlegt hversvegna Danir kaupa mun fleiri einfalda smábíla en grannlöndin, sérstaklega þó Svíþjóð og Þýskaland þar sem mjög lítil eða engin gjöld leggjast á nýja bíla önnur en virðisaukaskattur. Lágt verð er ráðandi þáttur í bílakaupum Dana og nú hefur semsé Chevrolet Spark tekið við titlinum mest seldi bíll Danmerkur af smábílum Suzuki sem lengi hafa verið á toppnum.
Fyrstu fjóra mánuði ársins voru nýskráðir 2.500 Spark bílar í Danmörku. Spark hefur stórt forskot á tegund og gerð númer tvö sem er Toyota Aygo. Af honum voru nýskráð 1.600 eintök. Í þriðja sæti er svo Suzuki Swift, sem er nokkru stærri en Spark og Aygo. Nýskráðir Swift bílar fyrstu fjóra mánuði ársins eru tæplega 1.400 bílar.
Fyrstu mánuðina sem Spark var á markaði í Danmörku var hann ófáanlegur með hinum mikilvæga öryggisbúnaði sem er ESC skrikvörn. Sá búnaður er nú orðinn staðalbúnaður í honum, sem og sex loftpúðar. Spark stendur því framar Aygo sem ekki hefur ESC sem staðalbúnað heldur verður að panta hann sérstaklega.
En þótt Chevrolet Spark falli Dönum vel í geð verður hið sama tæpast sagt um aðrar Chevrolet gerðir. Chevrolet Aveo sem er aðeins stærri en Spark, er t.d. nr. 32 á heildarsölulistanum í Danmörku og nr. 11 í sínum stærðarflokki og millistærðarbíllinn Cruze er nr. 42 og nr. 10 í sínum stærðarflokki. Hlutfall Spark í heildarsölu Chevrolet bíla í Danmörku er 71 prósent. Aðrar gerðir Chevrolet en þær sem nefndar hafa verið hér seljast nánast ekkert í Danmörku.