Chevrolet Volt og Fiat 500 í USA
Fjármálafréttavefurinn Yahoo Finance í Bandaríkjunum hefur sett saman lista yfir sjö mest mislukkuðu markaðssetningar nýs varnings. Á þessum lista er að finna tvo bíla: Þeir eru Chevrolet Volt sem skipar þriðja sætið á listanum og Fiat 500 sem skipar það sjötta.
Hjá GM og reyndar Bandaríkjamönnum almennt voru miklar vonir bundnar við rafbílinn Chevrolet Volt. Upphaflega átti bíllinn að koma á markað í Bandaríkjunum 2012 en var flýtt um hálft ár. En áhugi bílakaupenda dalaði og þótt markaðsfólk GM bæri sig vel og talaði um pantanir sem streymdu inn og framleiðslan á síðari helmingi nýliðins árs væri meira og minna uppseld og biðlistar orðnir til, þá var það ekki raunin. Forstjóri rafbíladeildar GM viðurkenndi þetta í nóvember sl. og sagði þá við Reuters fréttastofuna að það væri barnaskapur að trúa á það að heimuriun myndi skipta yfir í rafbíla nánast frá einum degi til annars. Það sæist á sölunni sem væri afar lítil og einungis 125 Chevrolet Volt bílar hefðu selst í júlímánuði sl. sumar. Þá bætti ekki úr skák fréttin um að eldur hefði komið upp í Chevrolet Volt bíl rúmri viku eftir að bíllinn var árekstursprófaður. Bandaríska umferðaröryggisstofnunin rannsakar nú bílinn og fleiri rafbíla og reynir að grafast fyrir um orsakir brunans, en salan hefur mjög liðið fyrir þessi atvik öll.
Fiat 500
Fiat/Chrysler setti Fiat 500 smábílinn á Bandaríkjamarkað á nýliðnu ári og batt í upphafi miklar vonir við það að vel mynda ganga, ekki síst í samkeppni við Mini. Ýmsir markaðsspámenn deildu ekki bjartsýni Fiat-manna og Alan Mulally forstjóri Ford sagðist í samtali við bandarískt tímarit ekki sjá stóran markað í Bandaríkjunum fyrir smábíla sem væru minni en Ford Fiesta. Þeir sem hingað til hefðu reynt að markaðssetja slíka bíla í USA hefðu farið erindisleysu. Mulally hefur reynst sannspár: Áætlanir Fiat gerðu ráð fyrir að selja 50 þúsund Fiat 500 bíla í Bandaríkjunum á nýliðnu ári. Það gekk alls ekki eftir því að einungis seldust innan við 12 þúsund bílar. Og eins og víða tíðkast í viðskipalífinu þá brást Fiat við hinni dræmu sölu með því að reka Laura Soave forstjóra Fiat í Bandaríkjunum, en það gerðist í nóvember sl. Sú umfangsmikla og dýra markaðssetning og auglýsingaherferð sem hún stóð fyrir, m.a. með söng- og leikkonunni Jennifer Lopez og djarfar auglýsingar með rúmenskri fyrirsætu, misheppnaðist að verulegu leyti.