Chevrolet Volt verður Opel Ampera í Evrópu

http://www.fib.is/myndir/OpelAmpera.jpg
Opel Ampera. Myndin sem er frá GM er afar ógreinileg.

-Með Ampera verður Opel fyrsti evrópski bílaframleiðandinn sem býður fram rafbíl sem kemst fleiri hundruð kílómetra í einu,- segir Alain Visser markaðsstjóri  GM Europe við evrópska bílafjölmiðla.

Ampera verður sýndur í fyrsta sinn undir því nafni á bílasýningunni í Genf í mars nk. Í raun er þetta þó Chevrolet Volt sem búið er að marg sýna bæði vestanhafs og austan undanfarna mánuði og ár. Þegar fyrsta mótaða hugmyndin að þessum rafbíl var fyrst sýnd í Detroit árið 2007 vakti hann verulega athygli fyrir  ýmislegt. Í fyrsta lagi var hann sýndur sem hreinn rafmagnsbíll og í öðru lagi var hönnun hans mjög frumleg og flott. Hönnuðurinn, sem heitir Theresa Tant hafði hannað sérstakan undirvagn sem  byggja mátti ofan á með margskonar hætti, en sú sportlega útgáfa sem sýnd var í Detroit þarna um árið þótti  mjög álitleg. Sú framleiðsluútgáfa sem síðar hefur verið marg sýnd er nú orðin að tvinnbíl sem kemst ca. 60 km á rafmagnshleðslunni einni en síðan tekur ljósamótor við og framleiðir þann straum sem þarf til að knýja bílinn áfram þegar lækkað hefur á geymunum. Þá er útlit framleiðsluútgáfunnar orðið mun hefðbundnara en var á hugmyndabíl hönnuðarins Theresu Tant þarna um árið.

Lengi vel var reiknað með að í Evrópu fengi Chevrolet Volt nafnið Opel Flextreme en nú mun semsagt ákveðið að það verði Opel Ampera.  Drægi bílsins á rafgeymunum einum verður 60 kílómetrar. Það er hugsað út frá því að daglegur meðalakstur á heimilisbíl í Þýskalandi er einmitt 60 km. Þannig á meðaljóninn að komast til vinnu og heim aftur auk þess að reka erindi sín á bílnum. Þegar heim er komið er honum stungið í samband og eru geymarnir fullhlaðnir eftir fáeinar klukkustundir og bíllinn tilbúinn til aksturs næsta morgun.

Þegar lækka tekur á geymunum fer bensín- eða dísilvél í gang og knýr rafal sem hleður inn á geymana og gefur einnig straum til að knýja bílinn áram sem ekkert hafi í skorist. Heildar vinnuhringur bílsins er því ekki minni en venjulegs fólksbíls með bensín- eða dísilvél.