Chrysler 300C með dísilvél

The image “http://www.fib.is/myndir/Chrysler-300C.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Chrysler 300C - nú með Benz dísilvél.
Samnýting á tækniþáttum Benz og Chrysler eftir sameiningu fyrirtækjanna verður stöðugt meiri. Benz hefur langa sögu í smíði góðra fólksbíladísilvéla og nú er Chrysler að byrja að njóta góðs af því og frá nýafstöðnum áramótum fæst Chrysler 300C með Benz dísilvél í Evrópu. Chrysler 300C hefur verið mjög vinsæll bíll í Bandaríkjunum og líka selst ágætlega í Evrópu.
Staðalvélin í þessum bíl hefur hingað til verið 3,5 lítra bensínvél en dísilvélin sem nú er orðinn valkostur í þessum eðalvagni er hin nýja V6 sem leysir af hólmi fjögurra og fimm strokka fólksbíladísilvélar Benz sem lengi hafa þjónað Benz eigendum. Í þeirri útgáfu sem vélin verður  í Chrysler 300C verður hún 218 hestafla og mesta vinnslan er 510 Nm sem næst strax við 1.800 snúninga á mínútu. Eyðslan er sögð vera 8,1 l á hundraðið í blönduðum akstri, en bensínvélin eyðir þremur lítrum meira á hundraðið. Öragnasía í útblásturskerfinu er staðalbúnaður og bíllinn uppfyllir mengunarkröfur Euro5 staðalsins. Viðbragðið er 8,3 sek í hundraðið. Gírkassinn er fimm hraða og sjálfskiptur.
Eins og Cherokee jepparnir og Voyager fjölnotabílarnir frá Chrysler sem seldir eru í Evrópu er Chrysler 300C framleiddur fyrir Evrópumarkað hjá Magna Steyr í Graz í Austurríki.