Citroën C4 Cactus

Á fyrstu kynningu á  nýja fjölskyldubílnum Citroën Cactus var mikil áhersla lögð á það að þessi nýi bíll væri einskonar sjálfstætt framhald af gamla Citroën bragganum eða 2CV bílnum. Ökuferð í Citroën Cactus á samkvæmt orðum fjölmiðlafólksins hjá Citroën að vera einskonar upplifun í sjálfu sér. Hér eiga þægindin að vera í fyrirrúmi ásamt notagildi og sparneytn, en hraði, vélarafl og sportlegir aksturseiginleikar að mæta afgangi, enda eru þeir ekki það sem þessi nýi bíll á að snúast um. Og var það ekki einmitt þetta sem gamli bragginn snerist um meðan hann var og hét? Það var á sinn hátt upplifun að aka honum, en sú upplifun var vissulega ekki öllum jafn vel að skapi, en þeir voru margir sem hreinlega elskuðu braggann og sakna enn.

Citroën C4 Cactus hefur verið reynsluekið fyrir FÍB blaðið í Evrópu og aksturinn var vissulega dálítil Citroën-upplifun. C4 Cactus er nefnilega talsvert sérstakur í hópi nútímabíla og líkist varla neinum sambærilegum bílum. Tíminn mun svo leiða í ljós hvort framleiðandanum hafi með honum tekist að koma fram með einn tímamótabílinn enn – bíl sem síðar verður kannski nefndur í sömu andrá og Citroën Traction Avant, Citroën 2CV, Citroën DS og Citroën GS. Hver veit?

Hönnun og þróun þessa nýja bíls hefur í það minnsta tekið sinn tíma því að sjö ár eru frá því að fyrsta frumgerð var viðruð sem hugmyndarbíll, svona til að prófa viðbrögð væntanlegra kaupenda. Síðan þá hafa verið gerðar fleiri breytingar en tölum verður á komið en tilgangurinn var alltaf að skapa bíl þar sem allt sem taldist vera ofaukið var miskunnarlaust höggvið frá.

Og nú er hann semsé að koma í almenna sölu í Evrópu og er um 200 kílóum léttari en aðrir bílar í þessum stærðarflokki. Því hefur verið náð með því að byggja hann úr léttum efnum eins og léttmálmum og gerviefnum og sleppa ýmsu sem ekki er kannski bráðnauðsynlegt. Þannig eru engar rúðuvindur í hliðargluggunum aftur í og aftursætið er ekki niðurfellanlegt í tvennu lagi  svo dæmi sé nefnt. Að öllu samanlögðu er þyngdin á bílnum tilbúnum til aksturs einungis 965 kíló.

Skemmtileg hönnunarbrögð

„Innanhússhönnun“ bílsins ber keim af frumleika, nýhugsun og nýjum efnum og er nokkuð ólík því sem algengast er. Mælaborðið beint framan við ökumann er sérstakt að því leyti að þar er aðeins upplýsingaskjár með allra nauðsynlegustu upplýsingum um það sem mestu máli skiptir í akstrinum. Allar nánari upplýsingar og stjórnun atriða eins og hita, loftræstingar, hljómtækja og slíks er síðan að finna í snertiskjá á statífi fyrir miðju mælaborðinu. Í sjálfskiptu gerðunum er heldur ekkert verið að flækja málin því að í stað gírstangar eru bara þrír takkar, einn fyrir afturábak, annar fyrir áfram og sá þriðji fyrir frígír eða „Neutral.“ Þetta er auðvitað eitt af mörgu sem gerir bílinn léttari og einfaldari í bæði framleiðslu og umgengni.

Þessi einfaldleiki sýnir sig víðar eins og t.d. á innanverðum dyrunum. Þar má sjá að hurðaspjöldin og ásamt flestu sem venjulega er á hurðaspjöldum, er steypt sem ein heild. Og í stað handfangs til að loka dyrunum þegar sest er inn, er einföld leðurpjatla. Fyrir framan framsætisfarþegann þar sem loftpúðinn er venjulega, er stór farangursgeymsla, sú sem í daglegu tali kallast hanskahólf, en bara miklu stærri. Loftpúðanum hefur hins vegar verið komið fyrir í loftinu ofan við framrúðuna. Þetta er auðvitað snilldarlausn. Loks ná framstólarnir saman í miðju bílsins svipað og í gömlu amerísku bílunum. Stór og vel bólstraður armpúði milli sætisbakanna skilur svo að þá sem sitja í sætunum þegar hann er felldur niður.

Utan á hliðum bílsins eru stórar mottur með loftfylltum hólfum sem kallast „Airbumps.” Þessi fyrirbæri gegna tvíþættum tilgangi – annarsvegar að verja bílinn rispum og smábeyglum frá hurðum annarra bíla sem kunna að rekast utaní hann á bílastæðum. Hins vegar skerpa þær á yfirbragði bílsins, enda fást þær í fjórum mismunandi litum. Þegar þessum fjórum litum er svo blandað við þá tíu liti sem sjálfur bíllinn fæst í og þá þrjá liti sem innréttingin fæst í, þá gefur það æði marga útlitsmöguleika. Svo er líklegt að þessar Airbumps mottur eigi þátt í því að gera bílinn hljóðlátari.

Byggður í Madrid

Citroën C4 Cactus er byggður í Madrid á Spáni. Undirvaginn er sá sami og í C3 að því undanteknu að lengra er milli hjóla og innanrými og farangursrými að sama skapi meira. Megin vélagerðir eru tvær; annars vegar þriggja strokka bensínvél eða fjögurra strokka 1,5 l dísilvél en báðar vélarnar fást síðan hvor um sig í nokkrum mismunandi útfærslum. Síðar á árinu er væntanleg 110 hestafla túrbínuútgáfa bensínvélarinnar. Gírkassar eru ýmist fimm gíra handskipting eða stiglaus sjálfskipting.  

Stiglausa sjálfskiptingin virtist hæfa aflminnstu dísilvélinni mjög vel. Hún heldur vélinni á því snúningssviði þar sem afl og orkunýtni vélarinnar er best og gefur svo í kaupbæti betra innanrými þar sem engin gírstöng né stokkur utan um hana og tengibúnað hennar er að taka upp pláss í gólfi bílsins. Sjálfskiptingin virkaði eins og best varð á kosið og með henni var hin hóflega eldsneytiseyðsla jafnvel minni en með hinni venjubundnu beinskiptingu.

Í akstri virkar þessi bíll furðu „Citroënlegur.“  Fjöðrunin er mjúk og maður situr þægilega í mjúkbólstruðum sætunum og bíllinn er rásfastur og tryggur í stýri. Mýktin og það hversu bíllinn er hljóðlátur vekur vissulega nokkra undrun í því ljósi hversu léttbyggður hann er, en ljóst er að í þeim efnum hefur tekist vel upp. Bíllinn reyndist sérlega þægilegur á langkeyrslu og ætti ekki að væsa um fjölskyldufólkið í honum á sumarferðalaginu.

Þegar þetta er ritað er þessi nýi bíll ekki í boði hér á landi, í það minnsta ekki enn sem komið er. Því er óvíst hvert verðið verður á honum þegar og ef  þar að kemur. En bera má ráð fyrir því að það verði ekki ósvipað og það verður t.d. í Danmörku þegar salan hefst þar með haustinu eða jafnvel ívið lægra. Þar er gert ráð fyrir því að ódýrasta gerðin verði á ca. 3,5-3,6 millj. ísl kr. upp í ca. 5 millj. ísl. kr. fyrir bíl með öllum fáanlegum viðbótarbúnaði.

Grunngerðin er reyndar ágætlega búin með öllum helsta öryggisbúnaði, loftkælingu, toppbitum til að festa á toppgrind og snertiskjá í mælaborði. Við þetta má síðan bæta ýmsu til viðbótar eins og t.d. topplúgu og glertoppi, dráttarbeisli, sjálfskiptingu, túrbínuvél o.fl.

http://fib.is/myndir/Citroen-C4-Cactus-2.jpg
Citroën C4 Cactus - arftaki gamla braggans?
http://fib.is/myndir/CitroenC4-Cactus-3.jpg
Hraðamælir á litlum skjá beint framundan ökumanni en
snertiskjár kominn í stað allra hnappa. Takið eftir sjálf-
skiptingartökkunum þremur neðst til hægri

Citroën C4 Cactus 1.6

 

Strokkar

 BlueHDI 100

 

4

Rúmtak vélar

1.560

Fjöldi ventla

8

Hö / snúningshr.

100-3.750

Vinnsla / snúningshr.

254-1.750

Lengd-breidd-hæð, sm

416-173-149

Lengd milli hjóla, cm

260

0-100 km/klst, sek.

10,7

Hámarkshr, km/klst

184

Eyðsla / útbl. pr. km

3,5 l / 82 g/km (CO2)

 

Citroën C4 Cactus PureTech 82

Strokkar

3

Rúmtak vélar

1.199

Fjöldi ventla

12

Hö / snúningshr.

82 / 5.750

Vinnsla / snúningshr.

118-2.7500

Lengd-breidd-hæð, sm

416-173-149

Lengd milli hjóla, cm

260

0-100 km/klst, sek

12,9

Hámarkshr, km/klst

167

Eyðsla / útbl. pr. km

4,6 l / 105 g/km (CO2)

 

Citroën C4 Cactus 1.6 e-HDI 92 ETG6 (sjálfsk.)

Strokkar

4

Rúmtak vélar

1.560

Fjöldi ventla

8

Hö / snúningshr.

92-4.000

Vinnsla / snúningshr.

230-1.750

Lengd-breidd-hæð, sm

416-173-149

Lengd milli hjóla, cm

260

0-100 km/klst, sek

11,4

Hámarkshr, km/klst

182

Eyðsla / útbl. pr. km

3,5 l /. 92 g/km (CO2)