Colas hlýtur styrki til að rannsaka sumarblæðingar og lífbindiefni í malbiki
Rannsóknarsjóður Vegagerðarinnar hefur veitt Colas tvo styrki upp á samtals 8,7 milljónir króna til að rannsaka mýkingarmark biks og malbiksblöndur með lífbindiefni. Colas Ísland ehf. sérhæfir sig í framleiðslu á malbiki og tengdum vörum.
Annar styrkurinn er upp á 4,2 milljónir króna til að rannsaka hvort mýkingarmark biks hafi áhrif á sumarblæðingar. Að auki styrkir Vegagerðin rannsóknir á fjórum mismunandi lífbindiefnum í malbiksblöndur. Þá fara 4,5 milljónir í að halda áfram að rannsaka lífbindiefni í malbiki
Björk Úlfarsdóttir, nýsköpunarstjóri Colas, segir að Colas ætli að þróa nokkrar mismunandi þjálbiksblöndur með mismunandi biktegundum og hlutfalli af íblöndunarefnum.
„Þær verða síðan prófaðar með tilliti til mýkingarmarks, seigju, stungudýptar og viðloðunar við steinefni. Síðan ætlum við í samstarfi við Borgarverk að leggja út prófunarkafla með þeim þjálbiksblöndum sem koma best út úr forprófunum,“ segir Björk.
„Við ætlum að gera fjórar mismunandi malbiksblöndur og bera þær saman við hefðbundið slitlagsmalbik. Þá skoðum við hvaða áhrif það hefur á gæði malbiks að setja 50% endurunnið malbik í nýtt malbik og svo skoðum við hvort lífbindiefni virki sem bikvaki fyrir endurunna malbikið í nýju malbiki,“ segir Björk. Þetta sé allt skoðað með það að markmiði að minnka umhverfisáhrif og kolefnisspor í vegagerð án þess að það hafi áhrif á gæði.
Colas hefur frá 2022 gert prófanir á lífbindiefni og það sama ár var gerð tilrauna útlögn á malbiki sem lagt var á göngustíg í Hafnarfirði með góðum árangri. Árið 2023 héldu prófanir áfram sem leiddu til þess að sumarið 2024 var hægt að leggja út tvær malbiksblöndur með tveimur mismunandi lífbindiefnum á umferðarþungan veg. Malbiksblöndurnar uppfylltu allar ströngustu kröfur sem gerðar eru til malbiks á Íslandi.