Consumer Reports gengisfellir Toyota
Hin öfluga bandaríska neytendastofnun, Consumer Reports, sem m.a. gefur út samnefnt tímarit, afturkallaði í gær meðmæli sín með þremur gerðum Toyota bíla, þar á meðal er flaggskip Toyota í Bandaríkjunum; Toyota Camry. Frá þessu er greint í Reutersfrétt og er afturköllunin talin vera mikið áfall fyrir gæðaímynd Toyota í Bandaríkjunum.
Í nýjustu árlegu áreiðanleika- og gæðakönnun Consumer Reports varð lúxusmerki Toyota – Lexus, í efsta sæti og snertir afturköllunin ekki Lexusmerkið. Hins vegar segist Consumer Reports ekki lengur geta mælt með Camry, Prius og RAV4 vegna þess að þeir komi ekki nógu vel út úr árekstrum hjá Insurance Institute for Highway Safety (IIHS), sem er umferðaröryggisstofnun tryggingafélaga í USA. Talsmaður Consumer Reports segir að prófaðir hafi verið yfir 50 bílar hjá stofnuninni með ekki nógu góðum árangri og ekki sé hægt að líta framhjá því.
Toyota Camry var söluhæsti fólksbíllinn í Bandaríkjunum á fyrstu níu mánuðum ársins og þriðji söluhæsti bíllinn á eftir tveimur tegundum pallbíla af stærstu gerð. Í kjölfar árekstrarprófana IIHS hefur Toyota gert breytingar á Camry og hefur óskað eftir nýjum prófunum á árekstursþoli bílsins í kjölfarið.
En Toyotabílarnir þrír eru ekki þeir einu sem Consumer Reports hefur afturkallað meðmæli sín með. Það hefur nefnilega líka verið gert með Audi A4 á sömu forsendum. Loks hafa meðmæli verið afturkölluð með tíu öðrum gerðum bíla en ekki vegna lélegs árangurs í árekstrarprófum heldu vegna slæms frágangs og slakra gæða ýmiss búnaðar.