Corolla fær heitið Auris

http://www.fib.is/myndir/Toy-Auri_6976.jpg
Toyota Auris. Myndirnar eru teknar á bílasýningunni í París sl. haust.

Frá því að fjölskyldubíllinn Toyota Corolla kom fyrst fram hafa í áranna rás verið gerðar á bílnum umtalsverðar breytingar og nú  er 11. kynslóðin að koma á markaðinn og með henni hverfur gamla góðkunna nafnið Corolla og nýtt – Auris kemur í staðinn. Nafnið er leitt af latneska orðinu Aureum sem þýðir gull, þannig að Auris gæti eins staðið fyrir -Gullvagninn og kannski á hann eftir að mala Toyota gamla gull eins og hin ágæta Corolla hefur lengstum gert.

Toyota Corolla er ennþá mest selda bílgerð heims og trúlega ein sú mest selda á Íslandi frá upphafi vega. Ísland er að þessu leyti er sér á parti því að annarsstaðar í Evrópu hefur Corolla ekki náð sérstaklega mikilli útbreiðslu. Evrópubúar þekkja miklu betur til Toyota Yaris og nú í seinni tíð Aygo og kannski er nafnbreytinguna yfir í Auris að rekja til þessa. Yngri Evrópubúar þekkja vel Yaris og finnst hann vel við sitt hæfi en Corollan kannski meira svona bíll handa afa og ömmu og einhverjum sérvitringum.

Allavega verður hin nýja kynslóð millistærðarfólksbíls Toyota markaðssett í Evrópu undir Auris nafninu þótt að í raun sé um að ræða 11. kynslóð Toyota Corolla. Kannski mun nýja nafnið opna augu evrópskra bílakaupenda fyrir nýja bílnum og mala Toyota í Japan gull - hver veit?http://www.fib.is/myndir/Toy-Auris_6975.jpg
 
Danskir bílablaðamenn hafa reynsluekið nýju Corollunni/Aurisinum og láta þeir ágætlega af honum, hann sé mjög líkur fyrirrennaranum í akstri – en þeir segja að góður bíll sé orðinn betri og hljóðlátari en áður án þess þó að ná að standa verulega upp í hárinu á allra bestu akstursbílum í sama flokki. Þó sé aflmesti Aurisbíllinn sem er með 177 ha. dísilvél tvímælalaust kominn í flokk bestu akstursbíla en auk öflugrar vélar er hann með fjölliðafjöðrun á afturhjólum sem bregðist afar vel við í hranalegum beygjum. „Standard“ bensínvélin verður sem fyrr 1,6 l bensínvél en fáanlegar verða öflugri og stærri bensínvélar auk tveggja gerða dísilvéla. Sú aflminni segja dönsku blaðamennirnir að sé mjög skemmtileg og hæfi bílnum hvað best.http://www.fib.is/myndir/Toy-Auris_6978.jpg