Costco lækkaði bensínlítrann um 16 krónur á innan við sólarhring
Undanfarna daga hafa íslensku olíufélögin verið að lækka útsöluverðið á bensíni og dísilolíu. Þessar verðlækkanir má rekja til gríðarlegrar lækkunar á heimsmarkaði en olíverð hefur ekki verið lægra í 18 ár.
FÍB hefur gagnrýnt eldsneytissölufyrirtækin fyrir það að skila ekki lækkun heimsmarkaðarins að fullu til íslenskra neytenda. Vissulega hefur verð á eldsneyti lækkað hér á landi en alls ekki í samræmi við það sem sjá má í nágrannalöndunum.
Eftir hádegi í dag (19.03.20) hafði eldsneytið í marsmánuði lækkað mest hjá Costco, bensínlítrinn um 17 krónur og dísillítrinn um 16 krónur. Bensínið hjá Costco kostar núna 180,90 krónur og dísilolían 179,90 krónur.
Næst besta verðið er á bensínstöðvum Orkunnar við Dalveg í Kópavogi og við Reykjavíkurveg í Hafnarfirði en þar kostar bensínlítrinn 196,80 krónur og dísillítrinn 194,80. Tvær bensínstöðvar hjá Atlantsolíu, þrjár hjá ÓB og ein hjá N1 (allar á samkeppnissvæði Urriðaholts í Garðabæ) liggja 10 til 20 aurum undir Orkunni við Dalveg.
Frá síðustu mánaðamótum hefur listaverðið á bensíni hjá N1 lækkað um 12 krónur á lítra. Um 10,90 krónur á lítra hjá Orkunni og ÓB. Hjá Atlantsolíu hefur bensínið farið niður um 9,90 krónur en algengasta verðið hjá Dælunni hefur ekkert breyst.
Heimsmarkaðsverðið á bensíni hefur lækkað yfir 50% líkt og hráolían á Norður Evrópumarkaði. Bensínlítrinn á heimsmarkaði, að teknu tilliti til gengisbreytinga íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, hefur lækkað um 46%.
Vegna tregðu flestra söluaðila á Íslandi vantar verulega upp á að eldsneytislækkunin skili sér eðlilega til neytenda. Til viðmiðunar þá hefur bensínlítrinn í Danmörku lækkað að meðaltali um 1,40 danskar krónur í mars. Umreiknað gerir þetta um 27 íslenskar krónur, miðað við meðalgengi dönsku krónunnar í mars. Meðalálagning íslensku olíufélaganna á hvern bensínlítra í mars er 10 krónum yfir álagningunni í febrúar.
Minni verðlækkun en efni standa til hefur áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja. Það er ekki stórmannlegt af íslensku olíufélögunum að auka álagningu á tímum heimsfaraldurs.
Frændur okkar á Norðurlöndunum og víðast í heiminum njóta mun meiri verðlækkunar en íslenskir neytendur. Ljósið í myrkrinu er snörp verðlækkun Costco í gær og fyrr í dag. Costco mun væntanlega hafa áhrif á samkeppnisaðilana.
Hætt er við að verðlækkanir aukist eingöngu á völdum bensínstöðvum nærri Urriðaholti í Garðabæ en að stærstur hluti landsins, sérstaklega landsbyggðin, verði skilin út undan líkt og undanfarin misseri.